Gleðigangan fer nýja leið í ár

Í ár hefst gleðigangan á Hverfisgötu og endar í Hljómskálagarðinum.
Í ár hefst gleðigangan á Hverfisgötu og endar í Hljómskálagarðinum. mbl.is/Júlíus

Gleðiganga Hinsegin daga verður með örlítið breyttu sniði í ár þar sem gönguleiðin hefur verið færð til, auk þess sem hátíðahöld tengd göngunni verða nú í Hljómskálagarðinum í staðinn fyrir að vera við Arnarhól. 

Í ár hefst gangan við gatnamót Hverfisgötu og Ingólfsstrætis klukkan 14:00 laugardaginn 12. ágúst. Verður gengið niður á Lækjargötu þar sem beygt er til vinstri og gengið að Hljómskálagarðinum þar sem hátíðahöldin fara fram. Undanfarin ár hefur verið gengið frá BSÍ um Sóleyjargötu og Lækjargötu að Arnarhóli.

Í tilkynningu frá skipuleggjendum hátíðarinnar segir að búist sé við miklum fólksfjölda í miðborginni í tengslum við gönguna og óhjákvæmilega verða þar raskanir á bílaumferð. Athygli er vakin á því að flestar götur verða lokaðar í kringum gönguleiðina og hátíðarsvæðið frá kl. 12 á hádegi og þar til hátíðardagskrá í Hljómskálagarðinum lýkur.

Gleðigangan er hápunktur Hinsegin daga en dagskrá hátíðarinnar er fjölbreytt.
Gleðigangan er hápunktur Hinsegin daga en dagskrá hátíðarinnar er fjölbreytt. mbl.is/Ómar Óskarsson

Forsvarsfólk Hinsegin daga biður hagsmunaaðila í miðborginni velvirðingar á þeim truflunum sem hátíðin kann að valda. Íbúar Reykjavíkur og gestir eru beðnir að sýna samstarfsvilja og umburðarlyndi og hvattir til að nýta sér almenningssamgöngur og bílastæðahús sem oft hafi verið illa nýtt meðan á göngunni stendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka