Brekkan að fyllast í Herjólfsdal

Gríðarlegt fjölmenni er nú í brekkunni í Herjólfsdal.
Gríðarlegt fjölmenni er nú í brekkunni í Herjólfsdal. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Brekkan í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum er þessa stundina að fyllast af fólki, en klukkan 23:15 hefst brekkusöngur sem Ingó veðurguð stjórnar í samstarfi við Árna Johnsen. Samkvæmt lögreglunni í Vestmannaeyjum er um eina fjölmennustu þjóðhátíð að ræða hingað til, en ekki hefur komið fram nákvæm tala um áætlaðan fjölda gesta.

Samkvæmt reynslumiklum þjóðhátíðargesti sem er þessa stundina í dalnum hefur brekkan aldrei áður verið jafn þétt skipuð.

Lögreglan í Vestmannaeyjum segir að dagurinn í dag hafi gengið nokkuð snurðulaust fyrir sig, en að tveir séu þó í fangageymslu sökum ölvunar. Verða þeir látnir sofa úr sér auk þess að missa af stærsta kvöldi hátíðarinnar, eins og lögreglumaður orðaði í samtali við mbl.is.

Eins og venjulega er fjölmennast þegar kemur að brekkusöngnum.
Eins og venjulega er fjölmennast þegar kemur að brekkusöngnum. Mynd/GSH

Jónas Guðbjörn Jónsson, talsmaður þjóðhátíðarnefndar, segir í samtali við mbl.is að þetta sé með fjölmennari hátíðum hingað til. Hann segist þó ekki tilbúinn að segja að þetta sé sú stærsta þar sem fjöldinn virðist vera á pari við árin 2010 og 2014. Segir hann að fólk streymi enn í dalinn og í raun muni þjóðhátíðarnefnd ekki lokatölu gesta fyrr en á morgun þegar farið verði yfir þau mál.

Jónas segir að hátíðin hafi tekist mjög vel fram að þessu og að þar skipti veðrið miklu máli, en ekkert hefur rignt í eyjum þessa helgi. „Hér eru allir hressir og kátir og það er gott veður,“ segir Jónas að lokum.

Brekkan í Herjólfsdal í kvöld.
Brekkan í Herjólfsdal í kvöld. Mynd/GSH
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert