„Það er búið að ganga frábærlega,“ segir Jónas Guðbjörn Jónsson, talsmaður þjóðhátíðarnefndar í samtali við mbl.is. Mikill mannfjöldi er í Eyjum yfir verslunarmannahelgina og segir Jónas allt stefna í eina stærstu Þjóðhátíð frá upphafi.
„Ég hef ekki fengið staðfestar tölur en það er að minnsta kosti fleira fólk en í fyrra, maður sér það bara,“ segir Jónas. „Svo eigum við von á helling af fólki í viðbót í dag svo þetta verður líklega með þeim stærri.“
Veðrið hefur leikið við gesti Þjóðhátíðar um helgina og segir Jónas mikla gleði vera í fólki. „Það eru allir hressir, kátir og vinalegir,“ segir hann.
Þá hafi dagskráin gengið snurðulaust fyrir sig, og ekki hafi verið mikið að gera hjá gæslunni. Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að Þjóðhátíð hefði gengið stóráfallalaust fyrir sig.
Jónas segir mikla spennu vera í loftinu fyrir kvöldinu í kvöld, þegar hátíðin nær hámarki. „Brekkusöngurinn með Ingó í fararbroddi er á sínum stað og svo verða blysin kveikt. Það eru allir mjög spenntir,“ segir hann.