Fullbókað í Herjólf í dag

Áætlað er að á brekkusöngnum á miðnætti verði um fimmtán …
Áætlað er að á brekkusöngnum á miðnætti verði um fimmtán til sextán þúsund manns í Herjólfsdal. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Herjólfur fer fimm ferðir frá Landeyjarhöfn í dag og er fullbókað í þær ferðir og munu því bætast við tvö til þrjú þúsund manns við þann mikla fjölda sem fyrir er í Vestmanneyjum, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Áætlað er að á brekkusöngnum á miðnætti verði um fimmtán til sextán þúsund manns í Herjólfsdal.

Nokkur erill var hjá lögreglunni síðustu nótt en mikill fjöldi þjóðhátíðargesta var í Herjólfsdal. Fjórir gista fangageymslu vegna ölvunar og ofbeldisbrota. Í einu ofbeldisbrotinu var maður sleginn þannig að tennur brotnuðu. Allir sem gista fangageymslu verða yfirheyrðir í dag eða leystir út með sekt vegna brota á áfengislögum, samkvæmt Facebook-síðu lögreglunnar.

Herjólfur siglir fimm ferðir á milli lands og Eyja í …
Herjólfur siglir fimm ferðir á milli lands og Eyja í dag. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Fíkniefnamálum fjölgaði frá því gær og eru þau komin á fjórða tug. Í einu málinu var gerð húsleit í húsi í bænum og fannst þar um 20 gr. af hvítu efni. Talið er að hér sé um sölumál að ræða. Mest hefur verið lagt hald á hvít efni, amfetamín og kókaín. 

Mikil umferðarteppa var í miðbæ Vestmannaeyja í gærdag þar sem mikill mannfjöldi hafði safnast saman við veitingastaði og götum verið lokað. Lögregla leysti farsællega úr málum en umferð hefur aukist gríðarlega í Vestmannaeyjum eins og gefur að skilja. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert