Á fimmta tug fíkniefnamála

Þjóðhátíðin í ár er sennilega ein sú fjölmennasta frá upphafi.
Þjóðhátíðin í ár er sennilega ein sú fjölmennasta frá upphafi. mbl.is/GSH

Á fimmta tug fíkniefnamála komu upp á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum en af þeim eru þrjú stærri sölumál. Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum, segir að allt hafi gengið stóráfallalaust fyrir sig í nótt og þrátt fyrir að fimm gisti fangageymslur þá sé helsta ástæðan ölvun ekki saknæmt athæfi.

Gríðarlegur mannfjöldi er í Vestmannaeyjum og segist Jóhannes vart muna eftir öðrum eins mannfjölda á Þjóðhátíð. Fjöldinn sé svipaður og árið 2014 en það er fjölmennasta þjóðhátíðin til þessa. Áætlað hefur verið að um 16 þúsund gestir hafi sótt Þjóðhátíð í ár en ekki liggja fyrir endanlegar tölur um fjölda gesta.

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.
Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Veðrið hefur leikið við Eyjaskeggja um helgina og ekki komið dropi úr lofti alla helgina. Flestir hafi verið til fyrirmyndar og vonar Jóhannes að svo verði einnig í dag og hægt verði að ljúka þessari Þjóðhátíð án stórra áfalla.

Mikið eftirlit hefur verið í Vestmannaeyjum alla helgina og hafa sex lögreglumenn með þrjá fíkniefnahunda annast eftirlit með fíkniefnaneyslu og sölu. Það skýri hvers vegna svo mörg mál hafi komið upp um helgina. Stærstu sölumálin tengjast sölu á amfetamíni og kókaíni.

mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert