„Maður þakkar heillastjörnum sínum“

„Undirbúningur, fagmennska og kjarkur voru uppskriftin að því sem gerði það að verkum að þetta óhapp endaði jafn vel og raun bar vitni,“ segir Morrie Piersol, einn þriggja skipverja sem voru um borð í bandarísku skútunni Valiant sem lenti í vand­ræðum suðvest­ur af Íslandi í lok júlí.

„Þetta var mikið erfiði og margt fólk hafði áhyggjur. Við erum  því afar þakklátir, mjög, mjög þakklátir,“ segir Piersol í viðtali við banda­ríska blaðið Richmond Times-Dispatch um lífsreynsluna. 

Piersol, sem hefur siglt allt sitt líf, hætti störfum sem leiklistarkennari í júní en hann varð 65 ára gamall í ferðinni. Samferðamenn hans tveir voru skipstjórinn Wesley Jones og Robert Forrest en allir eru þeir vanir siglingum. Fóru þeir allir í ferðalagið í leit að ævintýri. „En ég var ekki að vonast eftir svona miklu ævintýri,“ segir Piersol.

Sáu ekki eitt einasta skip

„Við gerðum allir bara það sem þurfti að gera í mjög erfiðum aðstæðum sem við réðum ekki við,“ segir Pierson sem vill taka fram að ekki hafi verið um að ræða neina hetjudáð þótt þeir hafi sloppið úr afar erfiðum aðstæðum.

Þeir lögðu úr höfn í Deltaville 1. júlí og hugðust koma við í Nova Scotia, á Nýfundnalandi, í Grænlandi og á Íslandi áður en þeir héldu til baka til Deltaville. Átti leiðangurinn að taka tvo mánuði.

Þeir þurftu þó að breyta áformum sínum vegna hafíss við Grænland og héldu því beint frá Nýfundnalandi til Reykjavíkur, þvert yfir Norður-Atlantshafið, og virtist sem þar væru þeir aleinir á ferð. „Við sáum ekki einn einasta bát. Við sáum ekki vöruflutningaskip. Við sáum aldrei fiskiskip,“ segir Pierson.

Sú staðreynd olli þeim áhyggjum þegar þeir loks lentu í vandræðum. Rignt hafði með köflum og verið nokkur vindur og þoka í nokkra daga áður en tók að hvessa og aðstæður urðu erfiðari. „Stormur,“ er orðið sem íslenska Landhelgisgæslan notaði yfir það að því er Piersol lýsir fyrir blaðamanni.

Skútan fór heilan hring

Það var á miðvikudagsmorguninn 26. júlí, næstum 300 mílur frá Íslandsströndum og höfðu skipverjar skipst á á þriggja klukkustunda vöktum. Það var komið að Piersol að vera á vakt á meðan hinir sváfu þegar stór alda skall á bátnum.

„Það eina sem við getum gert okkur í hugarlund er að ein af þessum stóru öldum hafi skollið á okkur. Hún skall ofan á bátinn og gjörsamlega hvolfdi honum í kaf. Kýraugun sprungu út á langhliðinni. Hún tók allt,“ segir Piersol.

„Það næsta sem þú veist er að þú ert að velta á hvolf og sjórinn hvolfist yfir þig. Hafið snéri bátnum á hliðina og loks á hvolf,“ lýsir Piersol. Sem betur fer hafi báturinn haldið áfram að snúast og loks komið aftur úr kafi. „Sem betur fer. Ef kjölurinn hverfur í slysi sem þessu, þá heldurðu áfram að vera á hvolfi og það hefði verið slæmt,“ segir hann.

Ætlar Pierson að veltan hafi ekki tekið nema þrjár til fjórar sekúndur. Þótt báturinn hafi loks aftur snúið rétt hafði hafið svo gott sem skolað öllu í burtu, þar á meðal mastrinu.

Sjórinn náði upp að hnjám

Ekki virtist þó vera komið gat á bátinn og þar af leiðandi minni hætta á að hann sykki. Mikill sjór var þó um borð í bátnum sem náði skipverjum upp að hnjám. Hófust þeir því handa við að ausa bátinn sem og að kasta gegnvotum farangri frá borði til að létta á skútunni. Það þjónaði einnig þeim tilgangi að skilja eftir sig slóð ef ske kynni að einhver kæmi að leita þeirra en þeir höfðu sent frá sér neyðarboð.

„Það var í lagi með okkur. Við vorum ekki dánir og við vorum ekki að sökkva,“ segir Piersol. „Þetta var ekki góð staða og maður velti fyrir sér hver útkoman yrði en enginn okkar var kominn á þann stað að segja: „Guð minn góður, það er úti um okkur.“ Það var ýmislegt sem þurfti að gera og það hélt okkur við efnið og hélt á okkur hita.“

Undu sjóinn úr fötunum

Kuldinn var það sem þeir óttuðust mest að sögn Piersols. Hættan á ofkælingu var raunveruleg. Þeir fóru úr fötunum, köstuðu í burtu öllu sem var úr bómull, undu sjóinn úr fötunum og klæddu sig aftur í eins mörg lög af fötum og mögulegt var.

Á svipuðum tíma og þetta var að gerast móttók íslenska Landhelgisgæslan neyðarboð frá skútunni og beindi skipi sem var í grenndinni í átt að skútunni. Þá var flugvél Isavia einnig send að skútunni og náðu skipverjar sambandi við áhöfn vélarinnar.

Var þeim sagt að þeim yrði bjargað eftir 20 mínútur en það var rannsóknarskipið Árni Friðriksson sem loks bjargaði þeim úr hremmingunum.

Margir deyja í björgunaraðgerðum

„Góðu fréttirnar voru þær að við sáum skipið og að okkur yrði bjargað,“ segir Piersol. „Slæmu fréttirnar voru hvernig í ósköpunum það ætti að virka? Það var risavaxið. Það var stórsjór,“ útskýrir Piersol.

„Ég hef lesið um það margoft… að fólk lifi af mikinn háska en deyi svo í björgunaraðgerðunum,“ bætti hann við.

Að höfðu samráði við skipstjóra Árna Friðrikssonar fóru þeir um borð í björgunarbát og úr björgunarbátnum fóru þeir með erfiðismunum upp kaðalstiga og um borð í skipið þar sem skipverjar Árna Friðrikssonar tóku á móti þeim. „Maður þakkar heillastjörnum sínum,“ segir Piersol. „Skipstjórinn var mjög fær.“

Um borð í Árna Friðrikssyni gátu þeir farið í sturtu, fengið þurr föt, mat og koju. „Þetta fólk var ótrúlegt,“ segir Piersol.

Ekki hættur að sigla

Á leiðinni til Íslands héldu skipverjar áfram rannsóknum sínum um borð þar sem Piersol og félagar fengu að fylgjast með. „Þetta var magnað,“ segir Piersol. „Við áttum tvo yndislega daga með frábæru fólki.“

Þremenningarnir voru loks sóttir í skipið sem ekki gat lagst að höfn í Grindavík og skýrsla tekin af þeim um það sem gerðist. Þeim var svo útvegað far til Reykjavíkur. Piersol gisti eina nótt á Íslandi og sneri svo heim en hinir tveir voru lengur og skoðuðu landið.

Kveðst Piersol hafa vitað að ferðin væri ekki hættulaus en þrátt fyrir uppákomuna sé hann þó hvergi hættur að sigla. Hyggjast hann og konan hans Carol til að mynda fá sér skútu til að sigla þegar þau eru komin á eftirlaun.

„Það hefur ekki breyst,“ segir Piersol. „En hvert ég fer á skútunni gæti breyst.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka