„Veðrið lék við okkur og það gekk allt rosalega vel,“ segir Jónas Guðbjörn Jónsson, talsmaður þjóðhátíðarnefndar, í samtali við mbl.is. Nú eru gestir hátíðarinnar margir farnir að streyma aftur í land en talið er að um sé að ræða eina fjölmennustu Þjóðhátíð til þessa. Nú hefst frágangur eftir hátíðina en að sögn Jónasar er ruslið aðeins meira en venjulega enda hátíðin mjög fjölmenn í ár.
„Þetta var mjög fjölmenn hátíð, ein af þeim stærri. Ég hugsa að þetta sé bara með þeim stærri frá upphafi,“ segir Jónas, en lokatölur yfir fjölda hátíðargesta liggja ekki fyrir ennþá. Á fimmta tug fíkniefnamála kom upp á hátíðinni en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Vestmannaeyjum gekk hátíðin stóráfallalaust fyrir sig í nótt.
Jónas kveðst í heild vera ánægður með hvernig til tókst í ár, allir hafi verið vingjarnlegir og hressir og stemningin verið góð alla helgina. Mikil eftirvænting ríkti yfir endurkomu Birgittu Haukdal sem steig á svið í Herjólfsdal í fyrsta sinn í 10 ár.
„Hún kom þarna á kvöldvökunni, hún var mjög flott og það var mikil stemning,“ segir Jónas um frammistöðu Birgittu.
Nú að lokinni Þjóðhátíð tekur við tiltekt, frágangur og hreinsun á svæðinu eftir herlegheit helgarinnar.
„Það voru svo margir þannig það er náttúrlega mikið af rusli, það svona hangir saman einhvern veginn. Jú, jú, það er fullt af drasli. Við förum bara á fullt klukkan eitt að taka til og gera þetta fínt aftur og ganga frá,“ segir Jónas sem miklar verkið þó ekki fyrir sér.
„Það er margt fólk sem kemur að því og það tekur nokkra klukkutíma að klára þetta svona fram eftir degi.“