Nóttin var róleg hjá lögreglunni á Vestfjörðum og Norðurlandi eystra. Enginn gistir fangageymslur í þeim lögregluumdæmum og engin ofbeldismál hafa komið upp, hvorki líkamsárásir né nauðganir.
Nóttin hjá lögreglu á Suðurlandi var mun rólegri en undanfarnar nætur. Talsvert hefur fækkað á tjaldsvæðum í uppsveitum Árnessýslu. Lögreglan var með mjög öflugt eftirlit með ölvunar- og vímuefnaakstri í uppsveitum sem og við Landeyjahöfn, segir í tilkynningu á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi.
Einn ökumaður var stöðvaður undur áhrifum áfengis og einn án ökuréttinda. Þá voru nokkrir ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur. Engin fíkniefnamál komu til kasta lögreglu eða líkamsárásir og var það samdóma álit lögreglumanna að mun minni ölvun og vímu hafi verið að sjá á gestum tjaldsvæða en undanfarnar nætur.
Lögregla í öllum landshlutum mun halda uppi öflugu eftirlit í dag með ölvunar- og vímuefnaakstri og hvetur því ökumenn til að huga vel að ástandi sínu eftir skemmtanahald helgarinnar, gefa sér góðan tíma til heimferðar og leggja ekki af stað nema allsgáðir og úthvíldir.