„Við lokum alltaf Naustunum, götunni fyrir framan og við tyrfðum hana og þar myndaðist svona skemmtileg, smáútihátíðarstemning,“ segir Steinþór Helgi Arnsteinsson, talsmaður Innipúkans, sem fram fór í miðborg Reykjavíkur um helgina. Ítrekar Steinþór þó að útihátíðarstemningin hafi ekki farið fram úr hófi.
„Maður vill ekki að það verði of mikil þannig stemning því fólk verður nú að muna að það er í borginni og getur farið heim í rúmið sitt að leggja sig,“ segir Steinþór, en nafn hátíðarinnar gefur einmitt sterklega til kynna að ekki er um útihátíð að ræða. „Þetta verður að vera innan þægindarammans, um það snýst Innipúkinn,“ bætir hann við léttur í bragði.
Mæting var með svipuðu móti og hún hefur verið undanfarin þrjú ár og var smekkfullt bæði á Húrra og á Gauknum öll kvöldin um helgina að sögn Steinþórs Helga. Hann ætlar að um 1.500-2.000 manns hafi lagt leið sína á Innipúkann í ár.
„Það var alveg ótrúlega magnað að sjá Siggu Beinteins koma fram,“ segir Steinþór, spurður hvað hafi staðið upp úr á hátíðinni. „Svo fannst mér líka rosa gaman á Rottweiler í gær, ég held ég hafi aldrei upplifað annan eins hita og svita inni á Húrra og þá,“ bætir hann við.
Annars hafi hátíðin í heild yfir gengið vel og verið skemmtileg í alla staði. Lítið sem ekkert var um ólæti eða uppákomur að sögn Steinþórs. Einum hafi þó verið gert að yfirgefa svæðið en hann hafði sýnt ofbeldisfulla hegðun og slegið frá sér og svo þurfti að hafa afskipti af einni eldri konu sem var orðin talsvert drukkin.
„Lögreglan kom bara og við ræddum við hana og hún var síðan bara í góðu standi það sem eftir lifði kvölds. Það voru aðeins tvö atriði sem komu upp,“ segir innipúkinn Steinþór Helgi.