Unglingalandsmót næst í Þorlákshöfn

Ungmennasamband Skagafjarðar, UMSS, hlaut Fyrirmyndarbikarinn í ár.
Ungmennasamband Skagafjarðar, UMSS, hlaut Fyrirmyndarbikarinn í ár. Ljósmynd/UMFÍ

Unglingalandsmóti UMFÍ fór fram á Egilsstöðum og var því slitið með pompi og prakt gærkvöldi. Fjöldi tók þátt í keppni í kökuskreytingum en að henni lokinni tóku við tónleikar með Hildi, Mur Mur og Emmsjé Gauta að ógleymdri flugeldasýningu á Vilhjálmsvelli. Næsta unglingalandsmót UMFÍ verður haldið um verslunarmannahelgina 2018 í Þorlákshöfn.

Í tilkynningu frá UMFÍ kemur fram að mótið hafi í alla staði tekist vel. Keppendur og mótsgestir voru til fyrirmyndar, frábær stemning var hjá fjölskyldum á tjaldstæðum og voru götur bæjarins skínandi hreinar alla mótahelgina.

MC Gauti kom fram á unglingalandsmóti UMFÍ á Egilsstöðum.
MC Gauti kom fram á unglingalandsmóti UMFÍ á Egilsstöðum. Ljósmynd/UMFÍ

Við slit mótsins þakkaði formaður UMFÍ, Haukur Valtýsson, heimafélaginu UÍA, bæjarbúum á Egilsstöðum og styrktaraðilum fyrir velheppnað mót og tilkynnti jafnframt að Ungmennasamband Skagafjarðar (UMSS) hljóti Fyrirmyndarbikarinn svokallaða. Bikarinn hlýtur sá sambandsaðili sem sýnt hefur góða umgengni á keppnisstöðum, tjaldsvæði, háttvísi og prúða framgöngu á meðan Unglingalandsmóti UMFÍ stendur.

Á landsmótinu var keppt í mörgum greinum af ýmsum toga en UMFÍ hefur áhuga á að vita hvað gestir mótsins prófuðu margar nýjar greinar og þeim þótti skemmtilegt að prófa og geta keppendur sent UMFÍ línu á netfangið umfi@umf.is eða með skilaboðum á Facebook.

Næsta landsmót UMFÍ verður á næsta ári á Sauðárkróki dagana 13. - 15. júlí, en á sama tíma fer fram landsmót UMFÍ 50 ára og eldri.

Thelma Knútsdóttir, framkvæmdastjóri UMSS, tók við bikarnum fyrir hönd UMSS.
Thelma Knútsdóttir, framkvæmdastjóri UMSS, tók við bikarnum fyrir hönd UMSS. Ljósmynd/UMFÍ
Ljósmynd/UMFÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert