„Þetta er búið að vera algjörlega frábært og hefur gengið algjörlega án nokkurra hnökra í allan dag.“ Þetta segir Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs, spurður hvernig gengið hafi að ferja fólks til lands frá Eyjum.
„Herjólfur er nú að sigla sína níundu ferð dagsins, af ellefu, og Akranesferjan fór ellefu ferðir áður en hún lagði af stað til Reykjavíkur, þar sem hún verður auðvitað aftur á áætlun í fyrramálið,“ segir Gunnlaugur í samtali við mbl.is.
„Við erum að flytja fleiri farþega heldur en síðustu ár, það er alveg ljóst. Þetta er því væntanlega ein af stærstu Þjóðhátíðunum sem haldnar hafa verið.“
Sjórinn hefur þá verið fínn og rennisléttur að sögn Gunnlaugs.
„Það er útilokað að panta betri aðstæður en þessar.“