Lögreglan á Suðurlandi er nú með þrjú meint kynferðisbrot til rannsóknar, sem talin eru hafa átt sér stað um verslunarmannahelgina og í vikunni á undan. Í einu málinu rannsakar lögregla meðal annars hvort kolmónóxíðeitrun frá gasi hafi átt þátt að máli.
Tilkynnt var um tvö kynferðisbrot á tjaldsvæðum á Suðurlandi um verslunarmannahelgina og var það samferðafólk þolenda sem hafði samband við lögreglu í báðum tilfellum. Annað málið kom inn á borð lögreglu á föstudeginum og það síðara á sunnudagsmorgni.
Að sögn lögreglu liggur fyrir kæra frá meintum brotaþola í öðru þessara mála, en í báðum málum hefur tekist að hafa uppi á meintum gerendum og hafa þeir verið yfirheyrðir. Eru málin nú í hefðbundnu rannsóknarferli.
Þriðja málið átti sér stað á tjaldstæði í Öræfasveit í vikunni fyrir verslunarmannahelgi, en þar barst lögreglu tilkynning um hugsanlegt kynferðisbrot, þar sem grunur er uppi um að einn einstaklingur hafi áreitt annan kynferðislega.
Að sögn lögreglunnar á Suðurlandi þá var brugðist skjótt við og meintur gerandi og þolandi fluttir með hraði í læknisrannsókn og að því loknu var farið með þann sem grunur leikur á að brotið hafi framið til yfirheyrslu á Selfossi.
Lögregla vinnur nú að rannsókn málsins og staðfestir Elís Kjartansson, lögreglufulltrúi hjá rannsóknardeild Lögreglunnar á Suðurlandi, að meðal þess sem verið er að rannsaka sé hvort að kolmónoxíðeitrun frá gasi hafi mögulega orsakað þá atburðarrás sem átti sér stað milli geranda og þolanda í tjaldinu.
Lögregla veitir ekki frekari upplýsingar um málið fyrr en niðurstöður blóðrannsókna liggja fyrir, en talið að það muni taka nokkrar vikur.