Skýrt brot á jafnréttislögum

Um skýrt lögbrot var að ræða í máli rútubílstjóra sem …
Um skýrt lögbrot var að ræða í máli rútubílstjóra sem fékk ekki að fara í fjögurra daga rútuferð vegna þess að ferðamennirnir vildu ekki kvenkyns rútubílstjóra. Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, bendir á skyldu atvinnurekenda um að sjá til þess að starfsfólki sínu sé ekki mismunað á grundvelli kyns. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdarstýra Jafnréttisstofu, segir að um skýrt lögbrot sé að ræða í máli rútubílstjóra sem fékk ekki að fara í fjögurra daga rútuferð vegna þess að ferðamennirnir vildu ekki kvenkyns rútubílstjóra. „Það er verið að mismuna fólki í starfi á grundvelli kyns.“

Í 24. grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla segir: „Hvers kyns mismunun á grundvelli kyns, hvort heldur bein eða óbein, er óheimil.“ Segir Kristín að fyrirtækið, með því að neita konunni um að fara í ferðina, hafi brotið gegn þessari grein.

„Það eru skyldur atvinnurekenda að sjá til þess að fólki sé ekki mismunað og þeir eiga að vinna að jafnrétti innan sinna fyrirtækja; þeir eiga að vinna að því að fjölga konum í stjórnunarstöðum og þeir eiga að sjá til þess að störf flokkist ekki í sérstök karla eða kvennastörf,“ segir Kristín og bætir við: „Má segja að þarna sé ákveðin tilhneiging til þess.“

Efnahagslegir hagsmunir rekast á menningarlega hagsmuni

Kristín segir að það sé í höndum konunnar að kæra viðkomandi fyrirtæki en það hefur hún ekki gert. Þá getur Jafnréttisstofa kallað eftir upplýsingum frá viðkomandi fyrirtæki og bent þeim á að þarna hafi þeir brotið á jafnréttislögum.

„Hér gilda reglur um það að konur og karlar hafa …
„Hér gilda reglur um það að konur og karlar hafa jafnan aðgang að öllum störfum,“ segir Kristín og bætir við: „Mér finnst þetta kalla á að herða á fræðslu til ferðamanna.“ Ljósmynd/Ásdís Ásgeirsdóttir

Konan átti að fara með ferðamennina í fjögurra sólarhringa ferð og segir Kristín að þarna hafi hún misst af miklum tekjum og því sé bæði um persónulegt tjón að ræða auk þess sem verið sé að brjóta á viðkomandi.

„Hinir efnahagslegu hagsmunir eru hérna að rekast á menningarlega hagsmuni; menningarlega stöðu okkar,“ segir Kristín.

Skilyrði um menningarlega og félagslega þekkingu

Kristín segir þetta vekja margar spurningar, meðal annars hversu vel erlendir ferðamenn eru upplýstir um lög og menningu á Íslandi. „Hér gilda reglur um það að konur og karlar hafa jafnan aðgang að öllum störfum,“ segir hún og bætir við: „Mér finnst þetta kalla á að herða á fræðslu til ferðamanna.“

Er það í höndum ferðamálayfirvalda og fyrirtækja að setja ferðaþjónustufyrirtækjum sem starfa hér á landi skilyrði um menningarlega þekkingu, félagslega þekkingu og að mönnum beri að virða lög landsins, hvort sem það eru íslenskir eða erlendir aðilar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert