25 verkefni fengu styrki úr Menningarnæturpotti Landsbankans í gær en hægt verður að sjá afrakstur þeirra á Menningarnótt þann 19. ágúst. Sérstakt áherslusvæði Menningarnætur í ár er Hlemmur og umhverfi þar sem boðið verður upp á ýmsa viðburði.
Þetta er áttunda sinn sem veitt er úr Menningarnæturpottinum, samstarfsverkefni Landsbankans og Höfuðborgarstofu, en starfshópur á vegum Höfuðborgarstofu valdi styrkþegana úr hópi 70 umsækjenda og var áhersla lögð á að styðja skemmtilega og frumlega viðburði. Veittir voru styrkir á bilinu 100-350 þúsund krónur, bæði til einstaklinga og hópa.
Í tilkynningu frá Höfuðborgarstofu segir að áherslusvæði Menningarnætur í ár er Hlemmur og umhverfi. „Svæðið hefur verið að byggjast hratt upp síðustu misseri og verður Hlemmur Mathöll t.d. opnuð þar á næstu dögum þar sem 10 veitingastaðir og kaupmenn bjóða upp á alls kyns kræsingar.“
Á Menningarnótt verður þar boðið upp á lifandi tónlist á litlu sviði og matarhátíð. Þar mun leikfélagið Huldufugl einnig halda úti leikhúsupplifuninni Kassinn sem fjallar um að festast inni í ósýnilegum kassa þar sem einn áhorfandi fær að njóta upplifunarinnar í einu. Þá mun söngkonan Ísabella Leifsdóttir ásamt meðleikara halda úti Hlemmsöng þar sem sungin verða ýmis þekkt og óþekkt lög með undirtekt áhorfenda.
Jafnframt verður vakin athygli á torginu við Veröld – Húsi Vigdísar sem verður vígt á setningu Menningarnætur klukkan hálf eitt. Auk þess munu listamenn af Skaganum halda úti dagskrá á veitingastaðnum Messanum í Sjómynjasafninu í tilefni þess að Akranes er gestabær Menningarnætur í ár.
Þá verður Hip Hop hátíð á Ingólfstorgi þar sem einungis verður einblínt á það ferskasta í Hip Hop senunni á Íslandi. Margét Erla Maack og Ragnheiður Maísól Sturludóttir ætla að bjóða upp á tjútt á útikaríkókí við útitaflið við Bernhöftstorfuna og Pera óperukollektíf ætlar að kitla bragðlauka gesta og gangandi með flutningi á súkkulaðióperunni Bon Appétit!
Nánari upplýsingar um þessa viðburði og fleiri er hægt að nálgast inn á vefsíðu Menningarnætur.