Rúta út af vegi við Ingólfshvol

mbl.is/Sigurður Bogi

Rúta fór út af veginum við Ingólfshvol á Suðurlandsvegi upp úr klukkan 22 í kvöld. Að sögn neyðarlínunnar voru einhverjir fluttir á sjúkrahús til skoðunar.

Ekki er talið að neinn hafi slasast alvarlega.

Lögreglan á Suðurlandi er á vettvangi en ekki var óskað eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar vegna slyssins.

Uppfært kl. 23.30:

Rútan hafnaði á hliðinni ofan í skurði til móts við Ingólfshvol.

Um litla rútu var að ræða með fimm til sex erlenda ferðamenn um borð, að sögn lögreglunnar á Suðurlandi.

Farþegarnir í rútunni sluppu ómeiddir en ökumaðurinn var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Hann er talinn lítillega slasaður.

Rútan skemmdist lítið en hún var á leiðinni til Reykjavíkur þegar slysið varð.

Að sögn lögreglunnar fór betur en á horfðist. Viðbúnaðarstigið var hátt til að byrja með en síðar var dregið úr því.

Lögreglan telur að allir hafi verið í beltum og það hafi haft mikið að segja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert