Bangsinn Bruce í Gaykjavík

Karakterinn Bruce telst vera „bangsi“ en að sögn Duffy er …
Karakterinn Bruce telst vera „bangsi“ en að sögn Duffy er það ákveðin flokkun samkynhneigðra karlmanna sem teljast vera í yfirþyngd, hárugir og hávaxnir. Mynd/Gay Iceland

Viðhafnarútgáfa af hinsegin myndasögunni Bruce the Angry Bear, sem fjallar um viðskotailla bangsann Bruce og kærasta hans Spencer í Gaykjavík, var gefin út í dag í tilefni af Hinsegin dögum. Jonathan Duffy, annar höfundur sögunnar, segir hana tækla hin ýmsu vandamál í heimi samkynhneigðra með húmor, eins og flokkun og líkamsdýrkun.

Sagan, sem hefur slegið í gegn á ýmsum stöðum í heiminum, er eftir Duffy, sem er kvikmyndagerðarmaður og uppistandari, og teiknarann Einar Val Másson. Hún fjallar um bangsann Bruce og kærasta hans Spencer. Þeir reka veitingastað í Gaykjavík, sem er eins konar hliðarveruleiki Reykjavíkur, og lenda þar í ýmsum skrautlegum ævintýrum. Meðal annars lenda þeir í átökum við heimtufreka túrista, fólk sem aðhyllist veganisma og mannræningja.

Hún fjallar um Bruce sem er viðskotaillur „bangsi” og kærastann …
Hún fjallar um Bruce sem er viðskotaillur „bangsi” og kærastann hans, Spencer. Þeir reka veitingastað í Gaykjavík, sem er eins konar hliðarveruleiki Reykjavíkur, og lenda þar í ýmsum skrautlegum ævintýrum. Mynd/Gay Iceland

Tæklar hin ýmsu vandamál með húmor

Karakterinn Bruce telst vera bangsi en að sögn Duffy er það ákveðin flokkun samkynhneigðra karlmanna sem teljast vera í yfirþyngd, hárugir og hávaxnir. Kærasti hans Spencer telst vera „twink“ en Duffy segir það vera samkynhneigðan mann sem er nokkuð yngri, hárlaus og grannur. Þá talar Duffy einnig um „otra“ sem séu grennri útgáfur af böngsum og „twonks“ sem séu twinks yfir þrítugt.

Duffy segir að þeir Einar taki þátt í þessari flokkun í kaldhæðni, enda sé hún fáránleg. Honum finnist merkilegt að samkynhneigðir menn flokki fólk eftir líkamstýpum. „Sem hópur sem vill ekki vera flokkaður þá elskum við að flokka sjálfa okkur,“ segir hann.

Hann segir að sagan sé gerð til að ögra og brjóta gegn pólitískum rétttrúnaði. Myndasagan beini auk þess sjónum að samkynhneigða samfélaginu og tækli ýmis vandamál þess, eins og líkamsdýrkun og flokkun, með húmor.

Bruce the Angry Bear bolur er nú til sölu, bæði …
Bruce the Angry Bear bolur er nú til sölu, bæði hjá Samtökunum ’78 en líka á ýmsum viðburðum í kringum Hinsegin daga. Mynd/Gay Iceland

Bruce byggður á alvöru böngsum

Duffy fékk hugmyndina að sögunni árið 2011 þegar hann var staddur á hinsegin kvikmyndahátíð. Þar sá hann nokkra reiða bangsa að bíða eftir myndinni Bear City, en sýningin á henni var sein. Duffy segir að þessir menn hafi fyllt hann af innblæstri og veitt honum hugmyndina fyrir Bruce og hans persónu.

Hann segist lengi hafa gengið um með hugmyndina að myndasögunni í huganum en hafi ekki framkvæmt hana fyrr en mun seinna. Þá hafi Hugleikur Dagsson hvatt Duffy til að fylgja henni eftir. 

Þegar Duffy loksins hitti Einar árið 2015, lýsti hann Bruce fyrir honum. Að sögn Duffy tók það Einar aðeins 20 mínútur að ná Bruce fullkomlega eins og hann ímyndaði sér hann og hófst þá myndasögugerð. 

Leita að týndum Twinks í Gaykjavík

Í viðhafnarútgáfu Bruce the Angry Bear leita þeir Bruce og Spencer að twinks, sem hafa týnst víðast hvar í Gaykjavík, í kringum Gaykjavík Pride. Þá hafa gestastjörnur komið fram í sögunni, eins og tónlistarkonan Hera Björk Þórhallsdóttir og tónlistarmaðurinn Páll Óskar Hjálmtýrsson.

Í tilefni Hinsegin Daga hafa höfundar sögunnar ákveðið að gefa út Bruce the Angry Bear bol, sem nú er til sölu, bæði hjá Samtökunum ’78 og á ýmsum viðburðum Hinsegin daga. Hluti ágóðans fer í að styrkja Reykjavík Pride og starf þess. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert