„Ekkert hættuástand hér“

Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, var í fullum galla á …
Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, var í fullum galla á meðan viðtalinu stóð. Hún segist ekki hræðast smit en vildi þó ekki koma of nálægt blaðamanni. mbl.is/Ragnheiður Davíðsdóttir

Það er alveg öruggt í Hveragerði segir Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins í samtali við mbl.is, úr nokkurra metra fjarlægð við blaðamann. Brynhildur segir „ekkert hættuástand“ vera á svæðinu. Rauði krossinn sér um skátanna án einkenna og að sögn Brynhildar er stemning hjá þeim. Þeir þurfi bara að hafa ofan af sér á meðan þeir bíði í sóttkvínni, sem haldi örugglega áfram út eitthvað út helgina.

181 skátar í sóttkví, þar af 63 sýktir

181 skátar dvelja nú í sóttkví í grunnskólanum í Hveragerði eft­ir að skæð maga­k­veisa kom upp í skáta­búðum á Úlfljóts­vatni. Þar af sýna 63 skátar einkenni, sem þykja benda til þess að um nóróveiru sé að ræða.

Þeir sem sýna einkenni dvelja einum megin í skólanum og þeir sem virðast heilbrigðir dvelja öðrum megin í skólanum. Að sögn Brynhildar koma nú að starfinu Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Rauði Krossinn og sóttvarnarlæknar.

Rauði krossinn, Brynhildur þar á meðal, sér um skátanna sem virðast hraustir. Heilbrigðisstarfsfólk, sjúkraflutningamenn og starfsmenn Heilbrigðisstofnunarinnar sjá um þá er sýna einkenni, hinum megin í skólanum. Brynhildur segist ekki vita frekar um stöðu mála þar en að helstu einkenni veiku skátanna séu uppköst, magakrampar og niðurgangur.

„Það er ekkert hættuástand hér“

Brynhildur, sem klædd er í sóttvarnargalla frá toppi til táar, segist ekki hræðast að smitast, enda sé hún aðeins hjá þeim skátum sem sýni ekki einkenni. „Við erum í göllum, pössum okkur bara að þvo okkur oft um hendurnar og nota spritt,“ segir hún.

Hún segir að stemningin hjá þeim hraustu sé róleg, þau sitji nú að spilum til að hafa ofan af sér en skátarnir þurfa að vera í sóttkví að minnsta kosti út daginn í dag. „Þeir eru bara rólegir og gaman, það er ekkert ástand,“ segir hún.

Fjöldahjálparmiðstöðin í Hveragerði.
Fjöldahjálparmiðstöðin í Hveragerði. mbl.is/Ragnheiður Davíðsdóttir

Brynhildur segir ekki ljóst hversu lengi þeir þurfi að dvelja í skólanum en það verði jafnvel út helgina: „Alla veganna út daginn og örugglega eitthvað áfram. Það er ekki alveg ljóst,“ segir hún.

Svo virðist sem allt sé með kyrrum kjörum í bænum. Í kringum skólann, sem merktur er stórum stöfum fjölda­hjálp­armiðstöð, ganga forvitnir ferðamenn, sem virðast ekki hræðast veikindi skátanna. „Það er ekkert hættuástand hér. Það eru allir inni og það er allt í góðu. Það má alveg fara í Hveragerði í dag,“ segir Brynhildur.  

Fleiri skátar keyrðir í sóttkví

Á meðan viðtalinu stóð keyrði í hlað bíll merktur Brunavörnum Árnessýslu. Að sögn Brynhildar voru slökkviliðsmenn að keyra fleiri skáta frá Úlfljótsvatni í sóttkví. Þar af voru fimm án einkenna og stúlka sem sýndi einkenni.

Brynhildur segist ekki vera viss hvort fleiri séu hjá Úlfljótsvatni en tilkynnt var fyrr í dag að tjaldstæðið hefði verið tæmt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert