Gleymdir skátar bættust í hópinn

Frá fjöldahjálparstöðinni í grunnskólanum í Hveragerði.
Frá fjöldahjálparstöðinni í grunnskólanum í Hveragerði. mbl.is/Ragnheiður Davíðsdóttir

Sex skátar hafa bæst í hóp þeirra erlendu skáta sem hafast við í fjöldahjálparstöð sem komið var upp í grunnskólanum í Hveragerði eftir að skæð magakveisa kom upp í skátabúðum á Úlfljótsvatni. Samtals eru því 181 skáti í miðstöðinni og þar af 63 sem eru með einkenni en einkennin þykja benda til þess að um nóróveiru sé að ræða.

Frétt mbl.is: Úlfljótsvatni lokað fram yfir helgi

Hermann Sigurðsson, framkvæmdastjórni Bandalags íslenskra skáta, segir í samtali við mbl.is að skátarnir sex hafi hreinlega gleymst á Úlfljótsvatni en þeir hafi verið sofandi í einu húsi á svæðinu þegar aðrir skátar voru fluttir í fjöldahjálparstöðina. Þar er þeim sem eru með einkenni haldið aðskildum frá einkennalausum.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi að enn séu að koma upp einkenni hjá nýjum einstaklingum, aðrir séu á batavegi og enn aðrir séu orðnir einkennalausir. Engin sé hins vegar eða hafi verið alvarlega veikur þannig að þurft hafi að leggja hann inn á sjúkrahús. Beðið sé niðurstöðu úr rannsóknum á sýnum.

Sýnin voru send á Landspítalann en niðurstöðurnar munu væntanlega staðfesta hver veikindin eru. Búist var upphaflega við niðurstöðum í hádeginu en það tafðist þar sem taka þurfti ný sýni. Er búist við niðurstöðum úr þeim um miðjan dag í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert