Brynhildur Georgsdóttir og Erla Aðalsteinsdóttir tóku þátt í WOW Glacier 360 fjallahjólreiðakeppninni í fyrra sem eitt af þremur kvennaliðum. Brynhildur segir keppnina hafa verið „meiriháttar ævintýri“ og nefnir þar einstakt landslagið, umgjörð keppninnar sem var til fyrirmyndar og góðan liðsanda. Í dag hefst keppnin í ár og eru þær að nýju meðal keppenda.
Erla og Brynhildur eru báðar vanar fjallamennsku en þær eru hluti af hópi tíu kvenna sem kalla sig Kríurnar adventure club. Frá árinu 2009 hafa þær farið í ýmsar ævintýraferðir bæði á fjallaskíðum og fjallahjólum. „Hér heima höfum við t.d. hjólað Laugaveginn en við höfum líka hjólað bæði í Sviss og Tyrklandi,“ segir Brynhildur.
Hún segist þó aldrei hafa farið slíka vegalengd á fjallahjóli áður en í keppninni er hjólað hringinn í kringum Langjökul á þremur dögum, samtals 290 kílómetra. Brynhildur segir að leiðin sé ekki tæknilega erfið en um langa daga er að ræða. „Þótt þú gleymir þér í keppninni þá annað slagið þegar þú lítur upp tekurðu andköf yfir því hvað þetta er allt fallegt,“ segir hún.
Keppnin var haldin í fyrsta sinn í fyrra og var lið Brynhildar og Erlu eitt þriggja kvennaliða, en keppt er í flokki karla, kvenna og blönduðum flokki kvenna og karla. Brynhildur segir að þær hafi auðvitað ætlað að keppa um sæti en vegna meiðsla hennar kom það ekki til greina. „Það sem dreif mig áfram var félaginn minn hún Erla og svo langaði mig að klára sem eitt af þremur liðum. Mig langaði að fá bronsið,“ segir Brynhildur.
Í ár eru sex kvennalið skráð í keppnina, þrjú íslensk og þrjú erlend lið. Má því búast við skemmtilegri keppni þeirra á milli. Brynhildur segir að allir sem eru í ágætu formi og hafi sæmilega reynslu af fjallahjólum geti tekið þátt í keppninni. „Þetta er ekki þannig tæknilega erfitt og það geta ansi margir gert þetta.“
Brynhildur segir að umgjörð keppninnar sé einnig til fyrirmyndar en skipuleggjendur eru með stöðvar á leiðinni þar sem boðið er upp á aðstoð bæði fyrir hjólin og hressingu fyrir hjólarann. „Að koma í búðirnar í lok dags var alltaf meiriháttar,“ segir Brynhildur en þar var í boði grill og hlaðborð af veitingum.
Hún segir að hún hafi íhugað að taka aftur þátt í keppninni í ár en hafi ekki haft tök á því í þetta sinn. Hún og eiginmaður hennar, sem tók einnig þátt í fyrra, ætla hins vegar að fylgjast með keppninni.
Keppnin hefst í dag og verður hægt að fylgjast með henni hér á mbl.is og vefsíðu keppninnar.