„Við lítum á þennan stuðning sem yfirlýsingu um að þessir ráðherrar vilji standa vörð um okkar málefni og berjast fyrir okkar réttindum,“ segir Gunnlaugur Bragi Björnsson, gjaldkeri Hinsegin daga, en fimm af ellefu ráðherrum ríkisstjórnarinnar styrkja Hinsegin daga í ár.
Mismargir ráðherrar hafa styrkt hátíðina fjárhagslega á síðustu árum; allt frá þremur upp í níu í senn. Gunnlaugur segir skipuleggjendur hátíðarinnar líta á styrkina sem mikilvægan móralskan stuðning.
Bjarni Benediktsson styrkti hátíðina fyrst árið 2013 og hefur styrkt hana árlega síðan. Upplýsingar hér að ofan eru úr bæklingi Hinsegin daga, en þar sem Bjarni bættist í hópinn eftir að dagskrárritið fór í prentun árin 2013 og 2014 vantar nafn hans þar inn.
Ráðherrarnir sem styrkja hátíðina í ár eru Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra, Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Bjarni styrkir hátíðina nú fimmta árið í röð, en aðrir ráðherrar í fyrsta sinn. Þorgerður Katrín hafði þó einnig styrkt hátíðina þegar hún var menntamálaráðherra.
Athygli vekur að allir ráðherrar Viðreisnar styrkja hátíðina, en aðeins tveir af fimm ráðherrum Sjálfstæðisflokks. Hefur þingflokkur Viðreisnar meðal annars gert málefni hinsegin eldri borgara að umtalsefni á Alþingi, og því hugsanlega um stuðningsyfirlýsingu að ræða að sögn Gunnlaugs.
„Við algjörlega lítum svo á að þetta sé til marks um það að þetta séu ekki bara peningar og orðin tóm heldur aðilar sem vilja af alvöru beita sér fyrir þessu,“ segir Gunnlaugur. „Viðreisn hefur talað fyrir því og umræðan hefur verið á þann veg að það séu mál í undirbúningi svo við auðvitað bíðum og vonum að svo verði því nýjasta regnbogakortið sýnir að Ísland er ekki jafn framarlega og fólk hefur talið.“
Vísar Gunnlaugur þar í regnbogakort Evrópusamtakanna ILGA-Europe fyrir árið 2017, en þar uppfyllir Ísland einungis 47% skilyrða samanborið við 59% árið áður. Kortið sýnir lagalega stöðu og réttindi hinsegin fólks um alla Evrópu, en Ísland situr í 16. sæti, neðst af Norðurlöndunum og á svipuðum stað og Grikkland og Ungverjaland.
Það sem dregur Ísland helst niður á listanum er skortur á víðtækri jafnréttislöggjöf sem bannar mismunun á grundvelli kynhneigðar, kynvitundar og kyneinkenna. Þá er löggjöf um réttindi transfólks ábótavant enda er enn krafist sjúkdómsgreiningar og læknismeðferðar til að einstaklingar geti fengið nafni sínu og kyni breytt í Þjóðskrá. Þá er ekki búið að banna ónauðsynleg inngrip í líkama intersex barna og líkamleg friðhelgi þeirra því ekki tryggð.
„Þetta eru fyrst og fremst atriði sem þyrfti að breyta með lagasetningu. Við vitum að við höfum náð langt félagslega en lagalega erum við enn ekki komin nógu langt. En ég hef fulla trú á því að það sé vilji í þinginu til að bregðast við því,“ segir Gunnlaugur.
Þá geta samkynhneigðir karlar enn ekki gefið blóð hér á landi, en árið 2015 sagði Kristján Þór Júlíusson, þá heilbrigðisráðherra, að leitað yrði leiða til að breyta gildandi regluverki svo það yrði heimilað. Enn hefur þó ekkert breyst. „Þetta er eitthvað sem hefur verið beðið eftir í mörg ár og við höfum séð það í löndum alls ekki langt frá okkur að verið er að endurskoða og milda þessar reglur,“ segir Gunnlaugur. „Ég held að það sýni því allir skilning að réttur blóðþega til að fá heilbrigt blóð er meiri en réttur þeirra sem vilja gefa, en við viljum að þetta verði skoðað í takt við þróunina í kringum okkur.“
Reykjavíkurborg er stærsti styrktaraðili Hinsegin daga, sem einnig njóta stuðnings fjölda fyrirtækja. Þá er hátíðin einnig fjármögnuð með sölu varnings og miða á viðburði.
„Það er auðvitað breytilegt eftir árum hvaða ráðherrar ákveða að verja fé í hátíðina en við þiggjum þessa styrki með þökkum enda þurfum við á hverri krónu að halda,“ segir Gunnlaugur og bætir við að skipuleggjendur líti ekki síður svo á að styrkirnir hafi táknrænt gildi.