Fyrsti hópurinn snúi aftur í kvöld

Tjöld skáta við Úlfljótsvatn.
Tjöld skáta við Úlfljótsvatn. mbl.is/Ragnheiður Daviðsdóttir

Ráðgert er að fyrsti hópurinn af erlendum skátum snúi aftur á Úlfljótsvatn í kvöld, eftir að 180 skátar voru fluttir þaðan í fjöldahjálparstöð í Hveragerði í kjölfar þess að nóró-sýking kom upp í hópnum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Útilífsmiðstöð skáta við Úlfljótsvatn. Segir þar að upphaflega hafi staðið til að snúið yrði aftur á Úlfljótsvatn á morgun, sunnudag, en sótthreinsun á byggingum og annarri aðstöðu hafi farið fram í dag og í gær og gengið vel.

„Eftir samráð við Heilbrigðiseftirlit og sóttvarnalækni á Suðurlandi þótti því ekki ástæða til að bíða lengur með að snúa til baka, þó svo að unnið verði eftir varúðarráðstöfunum á meðan beðið er eftir niðurstöðum sýnatöku,“ er haft eftir Hermanni Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Bandalags íslenskra skáta, í tilkynningunni.

„Til dæmis verður aðeins notað aðflutt flöskuvatn og farið eftir leiðbeiningum um ítarlegt hreinlæti, handþvott og þrif.“

Margir skátanna sem höfðu veikst voru útskrifaðir úr fjöldahjálparstöðinni í Hveragerði í dag og er nú unnið í því að koma öllum hópum fyrir á næturstað.

„Hver hópur fyrir sig mun svo fljúga til síns heima á næstu dögum eins og fyrri ferðaplön þeirra segja til um,“ segir Hermann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert