Lygilega vel hefur gengið að halda uppi góðum anda í skátahópunum sem veiktust af nóró-veiru á Úlfljótsvatni. Þetta segir Elín Esther Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Úlfljótsvatns, í samtali við mbl.is.
„Við höfum stærsta hlutann búið við óvissuástand og það hefur enginn gaman af því að vera innilokaður og vita ekki hvað tekur við.“
Alls var 181 skáti fluttur í Hveragerði en af þeim veiktust um 70. Síðustu skátarnir sem höfðu sýkst af veirunni voru útskrifaðir úr fjöldahjálparstöðinni í Hveragerði rétt fyrir klukkan 10 í morgun. Þar með er formlegum aðgerðum lokið.
Skátarnir voru glaðir að komast loks út og anda að sér fersku lofti. „Ég held ég hafi aldrei séð eins ánægt fólk og þegar síðustu skátarnir komu út í morgun. Þau drógu djúpt andann og hlógu, enda sum verið lokuð inni með veiku fólki frá því að fjöldahjálparstöðin opnaði,“ segir Elín.
Elín segir aðgerðirnar vegna veikindanna hafa gengið eins vel og hægt er og þakkar þar öllum sem komu að verkefninu. „Það hafa allir gert okkur lífið eins auðvelt og hægt er. Rauði krossinn, yfirvöld í Hveragerði, lögreglan, sjúkraflutningar, helbrigðisstarfsfólk og aðrir sem hafa komið að þessu.“
Það að hóparnir sem um ræðir séu skátar telur Elín að hafi einnig hjálpað til. „Þetta eru skátahópar með fyrirfram skilgreind hlutverk innan hópanna þannig að það hefur verið hlutverk foringja að halda uppi góðum anda í hópnum og það hefur gengið ótrúlega vel.“
Elín segist einnig hafa þurft að reiða sig á sitt starfsfólk meira en góðu hófu gegnir sökum aðstæðna. „Yngsti starfsmaðurinn okkar er 14 ára og þetta eru líka unglingar,“ segir Elín og bætir við að allir hafi staðið sig framar björtustu vonum og gert það að verkum að hægt var að sinna þörfum gestanna.
Einn hópur sneri til baka á Úlfljótsvatn í gær en búið er að fara yfir staðinn eftir leiðbeiningum heilbrigðiseftirlitsins og gera þær varúðarráðstafanir sem mælt er með. „Það sem eftir stendur er að fá niðurstöður úr sýnatöku heilbrigðiseftirlitsins,“ segir Elín.
Þar til þær niðurstöður liggja fyrir mun neysluvatn á staðnum ekki vera notað. „Við vonum að þær komi fljótlega og geri okkur kleift að snúa aftur til eðlilegs lífs,“ segir Elín. Af þeim fimm hópum sem voru á Úlfljótsvatni þegar veiran kom upp hafa tveir þegar flogið heim. Sá þriðji fer í fyrramálið og tveir síðustu á aðfaranótt miðvikudag.