Ungur karlmaður fyrirfór sér á geðdeild Landspítalans aðfaranótt föstudags eftir að hann hafði verið fluttur þangað í sjálfsvígshættu.
Lýst var eftir manninum aðfaranótt fimmtudags og fór fram umfangsmikil leit í kringum Kársnes. Þyrla Landhelgisgæslunnar var meðal annars notuð við leitina.
Samkvæmt heimildum mbl.is hafði hann þá ætlað að svipta sig lífi, en hætti við á síðustu stundu. Í staðinn fór hann fór hjólandi upp á Kjalarnes og gekk þaðan upp á Akranes, þar sem eldri bróðir hans býr. Hann fór inn á heimili hans og beið eftir eftir honum, þar sem hann var ekki heima. Lögreglan sótti manninn þangað og færði á geðdeild.
Aðstandendum mannsins var létt eftir að hann var kominn inn á geðdeild, þar sem þeir töldu að hann væri öruggur. Hann hafði verið þar í um hálfan sólarhring þegar komið var að honum látnum.
Vinir mannsins hafa stofnað opinn viðburð á Facebook þar sem fólk sem þekkti hann er hvatt til að koma á Rútstún í Kópavogi klukkan 21 í kvöld með kerti og minnast hans. Yfir 200 manns hafa skráð sig á viðburðinn.
Aðspurð segist María Einisóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítalans, ekki geta tjáð sig um einstök mál vegna þess að starfsfólk spítalans sé bundið þagnarskyldu.
„Ef svona atvik verða munum við að sjálfsögðu fara ofan í saumana á þeim og rótargreina eins og við gerum við öll alvarleg atvik,“ segir María.