Vinir og ættingjar unga mannsins sem svipti sig lífi á geðdeild Landspítalans aðfaranótt föstudags komu saman á Rútstúni í Kópavogi í kvöld til að minnast hans. Boðað var til minningarathafnarinnar á Facebook. Þar var fólk hvatt til að kaupa kerti, mæta brosandi og deila góðum minningum.
200 manns höfðu boðað sig á minningarathöfnina en ekki er ljóst hve margir mættu. Það var þó töluverður fjöldi sem kom saman á Rútstúni og kveikti á kertum.
Maðurinn var talinn í sjálfsvígshættu þegar hann var fluttur á geðdeild og var aðstandendum hans létt þegar hann var kominn þangað inn. Þeir töldu hann öruggan. Maðurinn hafði verið á geðdeildinni í um hálfan sólarhring þegar komið var að honum látnum.