„Það er hægt að koma í veg fyrir þetta. Það þarf bara að grípa fyrr inn í, en kerfið er sprungið,“ segir Málfríður Hrund Einarsdóttir, formaður Hugarafls, samtaka notenda geðheilbrigðisþjónustunnar. Eins og greint hefur verið frá fyrirfór ungur karlmaður sér á geðdeild Landspítalans aðfaranótt föstudags eftir að hafa verið fluttur þangað í sjálfsvígshættu.
Lýst var eftir manninum aðfaranótt fimmtudags og fór fram umfangsmikil leit í kringum Kársnes. Hann fannst heill á húfi og var færður á geðdeild. Aðstandendum mannsins var létt, þar sem þeir töldu að hann væri öruggur. Hann hafði verið á geðdeild í um hálfan sólarhring þegar komið var að honum látnum.
„Þetta voru skelfilegar fréttir sem bárust um helgina. Ég veit að inni á svona deildum er eftirlit og það á að vera yfirseta og annað. Það þarf mikið til að svona takist,“ segir Málfríður.
Málfríður segir nauðsynlegt fyrir ráðamenn að grípa til aðgerða. „Það verður að grípa inn í og gera eitthvað. Það þýðir ekki að setja hausinn bara í sandinn og humma þetta frá sér. Við munum halda áfram að berjast og gera ráðamönnum það ljóst að líf fólks með geðraskanir eru líka dýrmæt,“ segir hún.
Málfríður segir gott fólk vinna á Landspítalanum sem geri sitt besta, en það sé ekki nóg. „Kerfið er löngu sprungið innan Landspítalans,“ segir hún. Bætir hún við að Hugarafl hafi verið í baráttu við að halda sér á lífi eftir að styrkur heilbrigðisráðuneytisins var lækkaður fyrir árið 2017. „Við getum gripið inn í og gert svo margt. Við getum gripið fólk fyrr, og kannski áður en það fer á þennan stað.“
Þá segir hún að bæta þurfi kerfið að innan og ekki þurfi alltaf að finna upp hjólið. „Það þarf að bæta það sem fyrir er. Nú er verið að tala um að það vanti úrræði fyrir ungt fólk og það vanti samfélagslega geðþjónustu, en við erum með þetta allt saman. Það þarf því að styrkja það sem fyrir er því það er ódýrara þegar uppi er staðið.“
Málfríður segir það mjög alvarlegt ef ekki verður gripið inn í. Hugarafl sé stærsta virkniúrræði sem býðst hér á landi til endurhæfingar fyrir fólk með geðraskanir, og nýskráningar hafi margfaldast. „Auðvitað þarf að vera til staður eins og okkar þar sem hægt er að hringja og koma. Ef okkar félag verður ekki lengur starfandi þýðir það aukið álag á Landspítalann og heilsugæslu, og í verstu tilvikum dauðsföll.“
Forsvarsmenn Hugarafls eiga fund með félagsmálaráðherra á fimmtudag, sem Málfríður segist binda miklar vonir við. „Við krefjumst svara og að eitthvað verði gert í okkar málum,“ segir hún. Sjálf verður hún í Boston þar sem hún mun tala á stórri ráðstefnu um starfsemi Hugarafls. „Ég mun tala fyrir fullt af fagfólki og notendum sem horfa til okkar því þeim finnst við vera að gera svo frábæra hluti, en á sama tíma erum við hér heima að berjast fyrir því að halda lífi.“