Gríðarmiklar framkvæmdir í Reykjavíkurborg virðast ekki ætla að hafa áhrif á Menningarnótt. Útitónleikar hátíðarinnar munu til að mynda vera á Arnarhól að vana en að sögn Áshildar Bragadóttur, forstöðukonu Höfuðborgarstofu, var lögð mikil áhersla á að halda þeirri hefð. Þá fagnar Dagur B. Eggertsson góðum viðbrögðum skipuleggjenda og hvetur jafnframt fólk til að nýta sé fögnuðinn til að sjá breytta Reykjavíkurborg.
Reykjavíkurborg hefur tekið miklum hamskiptum undanfarna mánuði og ekki var víst hvort að byggingarframkvæmdir borgarinnar myndu hafa áhrif á hátíðina. Þá voru framkvæmdir í kringum Arnarhól helsta áhyggjuefni skipuleggjendanna en þar hefur Menningarnótt áður náð hápunkti, með útitónleikum og flugeldasýningu.
Áshildur Bragadóttir segir skipuleggjendur hátíðarinnar hafa strax hafið undirbúningsvinnu til að geta haldið hefðinni á Arnarhóli:
„Þetta var samstillt átak í rauninni, bæði Reykjavíkurborgar, Vegagerðarinnar og þeirra aðila sem eru í uppbyggingu á þessu svæði að taka saman höndum og sjá til þess að væri hægt að opna svæðið,“ segir hún í samtali við mbl.is
Hún segir að þrátt fyrir heilmiklar framkvæmdir þá muni framkvæmdirnar ekki trufla dagskrá Menningarnætur:
„Þær hefta mjög takmarkað flæði gangandi vegfarenda, þær bitna miklu frekar á bílaumferðinni. Svæðið verður lokað fyrir umferð þannig að ég held að fólk eigi til með að komast vel sinnar ferðar um alla miðborg,“ segir hún.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segir skipuleggjendur hátíðarinnar hafa tekist vel til: „Mér sýnist að öllu að skipuleggjendum hafi tekist að taka mið af því að það eru kannski einhverjar mestu framkvæmdir í sögu borgarinnar yfirstandandi akkúrat núna,“ segir Dagur í samtali við mbl.is.
Dagur hvetur borgarbúa jafnframt til að nýta tækifærið og skoða breytta Reykjavíkurborg: „Ég held að það geti verið áhugavert og fróðlegt fyrir fólk að fara í bæinn og sjá nýja Hafnarstrætið, að skoða mathöllina upp við Hlemm og þessi nýju hús og breytingarnar sem eru að verða.“