Síðustu skátarnir á leiðinni heim

Síðustu skátahóparnir sem dvöldu á Úlfljótsvatni þegar nóró-veirusýking kom þar upp í síðustu viku eru á leið heim í fyrramálið. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu. hreinsunarstarf taki við í framhaldinu og stefnt að því að staðurinn opni aftur eftir þrjár vikur.

Tekin hefur verið ákvörðun um að taka ekki á móti gestum í þessar þrjár vikur til þess að gæta ítrustu varúðar og tryggja að þessi kafli sé að baki að sögn Elínar Estherar Magnúsdóttur, framkvæmdastjóra Útilífsmiðstöðvar skáta á Úlfljótsvatni.

„Það miðast af mögulegum líftíma veirunnar og eftir þann tíma ætti vandamálið að vera úr sögunni. Næstu dagar munu svo fara í það hjá okkur að ákveða næstu skref, þrífa og gefa starfsfólkinu smá hvíld. Það hefur mætt mikið á öllum en á starfsmannafundi í dag var góður andi og mikill vilji til að klára þetta verkefni með gestum okkar.“

Fyrir utan starfsfólkið og sjálfboðaliða innan skátahreyfingarinnar hafa fjölmargir lagt hönd á plóg síðustu daga. „Rauði krossinn og Heilbrigðisstofnun Suðurlands hafa reynst okkur gríðarlega vel, en líka lögregla, björgunarsveitir, heilbrigðiseftirlitið, bæjaryfirvöld í Hveragerði, Garðyrkjuskólinn og margir fleiri sem hafa veitt okkur ómetanlega aðstoð og fyrir það erum við þakklát.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert