„Erum við sem samfélag ekki að bregðast fólki sem þarf aðstoð? Þurfum við ekki að vera brjáluð og krefjast úrbóta og úrræða? Áður en næsta manneskja deyr.“
Þetta skrifaði Oddrún Lára Friðgeirsdóttir á Facebook-síðu sína í gær, þar sem hún segir að fréttir af ungum manni sem tók eigið líf á sjálfsvígsvakt á geðdeild Landspítalans hafi vakið upp slæma minningu. Ellefu ár séu liðin en ekkert hafi breyst.
„12. maí 2006 fór mamma upp á geðdeild. Hún óttaðist um eigið líf í eigin höndum og fór á eina staðinn sem býður upp á aðstoð fyrir andlega veika. Þar var hún lögð inn og sett á sjálfsvígsvakt. Sjálfsvígsvakt virkar þannig að athuga á með manneskjuna á 15 mínútna fresti. Um miðnætti sólarhring eftir að hún mætti var síðasta innlitið til hennar. Tveimur tímum síðar fannst hún látin, 14. maí,“ skrifar Oddrún.
Hún segist ekki vita hvers vegna tvær klukkustundir hafi liðið án þess að litið hafi verið inn til hennar. „Af hverju beltið hennar var ekki tekið af henni veit ég ekki. Eina sem ég veit er að þetta átti ekki að gerast þarna.“
Kveðst hún hafa sent tölvupóst á embætti landlæknis nokkrum árum síðar til þess að fá svör. Þau hafi hún hins vegar aldrei fengið.
„Foreldrar okkar, börnin okkar, systkini okkar, frænkur og frændur, vinir og nágrannar deyja, mörg á ári, vegna þess að geðdeildin er undirmönnuð og plásslítil. Verkferlar ekki nógu góðir og svo ef eitthvað gerist inni á stofnunum er það oft þaggað niður. Algert úrræðaleysi ríkir hjá fólki því þeim er vísað frá. Sumum sagt að koma aftur seinna. En stundum er ekkert seinna.“
Segir hún fólki bera skylda til að aðstoða ef það komi að slysi. „Manneskju sem er að blæða út er ekki vísað frá inni á bráðamóttöku. Erum við sem samfélag ekki að bregðast fólki sem þarf aðstoð? Þurfum við ekki að vera brjáluð og krefjast úrbóta og úrræða? Áður en næsta manneskja deyr. Erum við ekki bara búin að fá nóg? Ég er það allavega.“