Þrifum á sóttvarnarstöðinni í Grunnskólanum í Hveragerði lauk í gærkvöldi. Komið var á fót fjöldahjálparstöð í grunnskóla bæjarins fyrir helgi eftir að 67 skátar sem dvalið höfðu á Úlfljótsvatni smituðust af nóró-veirunni.
Yfir 170 skátar voru fluttir í kjölfarið í fjöldahjálparmiðstöðina þar sem þeir dvöldu um helgina, á meðan þeir voru í sóttkví.
Í fréttatilkynningu frá Rauða krossinum á Íslandi segir að þrifum á sóttvarnarstöðinni hafi lokið í gærkvöldi. Allt hafi verið sótthreinsað, hátt og lágt, og menguðum hlutum fargað, en sérþjálfað starfsfólk hafi séð um þrifin.