Tíu manns, þarf af einn starfsmaður, eru nú með nóró-veiruna á Úlfljótsvatni. Þetta staðfestir Elín Esther Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Úlfljótsvatns. Hinir níu sem veikir eru dvöldu í fjöldahjálparstöðinni í Hveragerði um síðustu helgi.
„Ég er svo heppin að hafa hjúkrunarfræðing í starfsliðinu mínu sem hefur sinnt þessum hóp stanslaust,“ segir Elín. „Síðan fengum við smá liðsauka í nótt, þannig að það er búið að fylgjast mjög vel með.“ Hún segir einnig ganga vel að vinna með hópunum varðandi umgengnisreglur, þannig að ekki sé samgangur milli þeirra sem eru sýktir og annarra, eða að þeir sem sýktir eru séu að nýta sömu klósett og aðrir.
„Ég held að það hafi kannski ekki alveg allir áttað sig á alvarleikanum í fyrstu lotu.“
„Við erum að vona að við séum búin að einangra þetta og nú renni þetta sitt skeið og sé búið,“ segir Elín.
Tæplega 100 manns voru á svæðinu í morgun, að starfsfólki meðtöldu. Ákveðið var í dag að bjóða þeim hópum sem vildu, og sem ekki hafa sýkst, að fara eitthvað annað. „Dagurinn fer í að finna heimili fyrir þau. Þau eru núna í ferðum um landið og tóku farangur sinn með og munu enda á einhverjum öðrum náttstað.“
Elín segir þetta vera skref sem tekið sé í samráði við sóttvarnarlækni í þá átt að hefta frekari útbreiðslu nóró-veirunnar og til að reyna að láta hana ganga yfir sem hraðast.
Hún segir enga þeirra 10 sem nú liggja, vera alvarlega veika. Einkennin séu þau sömu og hjá þeim sem veiktust aðfararnótt föstudags, uppköst og niðurgangur.
Ekkert bendi til þess að veiran eigi upptök sín á Úlfljótsvatni, en allt kapp sé engu að síður lagt á að koma í veg fyrir að fleiri sýkist. „Við erum að stefna á að hreinsa svæðið vel og loka síðan sem varúðarráðstöfun í þessar þrjár vikur sem að það tekur veiruna að drepast. Því við höfum engan áhuga á að þetta gerist aftur.“