Ragnheiður Davíðsdóttir
„Ég á ekki von á að hún verði mjög sýnileg, hún verður bara til staðar og til taks,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur um vopnaða sérsveit á Menningarnótt, í samtali við mbl.is. Hún verði ekki það fyrsta sem mæti fólki. Reykjavíkurborg hafi langa og góða reynslu af lögreglunni í tengslum við hátíðina og hann eigi von á góðu samstarfi.
Sérsveitin verður vopnuð á hátíðinni en hún hefur einnig verið vopnuð við gæslu á öðrum viðburðum í sumar, þar á meðal í Gleðigöngunni, Druslugöngunni og 17. júní.
Aðspurður um sveitina á Menningarnótt svarar Dagur: „Ég á ekki von á því að hún verði mjög sýnileg. Hún verður bara til staðar og til taks. Eins og að undanförnu verður hún kannski ekki það fyrsta sem mætir fólki.“
Dagur segir að það vera mat ríkislögreglustjóra hvort nauðsyn sé á vopnaðri sérsveit. Hún hafi haft yfir vopnum að búa í áratugi en umræðan snúist meira um hversu sýnileg hún þurfi að vera á mannamótum. Hann segist vona að Reykjavíkurborg og lögregla nái sameiginlegum skilning og jafnvægi í þeim málum.
Hann eigi ekki von á öðru: „Við höfum langa og góða reynslu af góðu samstarfi við lögregluna, slökkviliðið og alla öryggisaðila í tengslum við menningarnótt,“ segir Dagur. „Ég á ekki von á öðru en að það samstarf verði það besta, eins og það hefur verið á undanförnum árum,“ bætir hann við.