„Það væri óskandi að þetta gæti farið af stað, því það er mjög mikilvægt að þetta fari að lagast,“ segir Vilberg Þráinsson, oddviti Reykhólahrepps, um lagningu nýs vegar í Gufudalssveit á Vestfjörðum.
Fyrirtækið Landmótun vinnur að breytingum á aðalskipulagi fyrir Reykhólahrepp vegna lagningar Vestfjarðarvegar um Teigsskóg en verkefnið hefur verið mjög umdeilt. Að sögn Vilbergs tekur ferlið við aðalskipulagið allt að fimm mánuði.
Vegagerðin mun ekki sækja um framkvæmdaleyfi fyrir veginum fyrr en breytingarnar á aðalskipulaginu liggja fyrir. Eftir breytingarnar á aðalskipulaginu mun sveitarstjórn Reykhólahrepps ákveða hvort framkvæmdaleyfið verður veitt.
Með nýjum vegi um Gufudalssveit er ætlunin að færa Vestfjarðaveg nr. 60 af Ódrjúgshálsi og Hjallahálsi og niður á láglendið við Breiðafjörð.
Aðspurður segir Vilberg að sveitarfélagið hafi ekki myndað sér ákveðna skoðun á því hvort best sé að leggja veginn um Teigsskóg. Skipulagsstofnun hefur lagst gegn því en Vegagerðin er því fylgjandi.
„Við erum búin að vera að safna að okkur upplýsingum síðustu mánuði og erum að tala við alla aðila sem koma að þessu máli. Við höfum ráðið mann sem heldur utan um þessar upplýsingar,“ greinir Vilberg frá og segir sveitarfélagið hafa átt samtal við allar þær stofnanir sem koma að málinu.
„Við reynum að vinna þetta eins vel og við getum svo við getum rökstutt þá ákvörðun sem við tökum.“
Endurbætur á vegi um Gufudalssveit hafa verið í bígerð í mörg ár en um malarveg er að ræða.
„Það er ekki mönnum bjóðandi að þurfa að draga vörubíla þarna upp um hásumar í júlímánuði af því að þeir komast ekki upp út af drullu eða bleytu. Vörubílar liggja þarna fastir allan ársins hring,“ segir Vilberg.
Hann bætir við tíu til tólf börn sem sæki grunnskóla á veturna fari einnig um veginn, auk þess sem fiskur er fluttur í gegnum veginn að vestan. „Maður vonar að þetta fari að ganga. Það er búið að bíða eftir þessu svolítið lengi. Við höldum í vonina um að þetta fari allt á besta veg.“
Fari svo að Reykhólahreppur ákveði að veita Vegagerðinni framkvæmdaleyfi vegna lagningar vegarins segist Vilberg ekki vita hvort eitthvað verði því til fyrirstöðu að framkvæmdir hefjist.
„Við tökum bara eitt skref í einu og reynum að gera þetta eins vel og við getum þannig að þetta gangi sem best.“
Rúmlega sjö þúsund manns hafa tekið þátt í undirskriftasöfnun til að mótmæla frestun á vegaframkvæmdum í Gufudalssveit.
Í mars síðastliðnum tilkynnti ríkisstjórn Íslands um 200 milljóna króna aukafjárveitingu vegna framkvæmdanna.