Yfir 300 viðburðir verða í boði á Menningarnótt og verður yfir hundrað tónleikum slegið upp um miðborgina og þremur stórtónleikum. Tónlistar- og menningarveislan verður haldin í 22. skipti næstu helgi í Reykjavík á laugardaginn. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri setur hátíðina við Veröld-hús Vigdísar en þá mun rektor Háskóla Íslands vígja torg byggingarinnar og Vigdís Finnbogadóttir gróðursetur tré.
Gestabær hátíðarinnar í ár verður Akranes sem mun bjóða upp á fjölbreytta dagskrá á veitingarhúsinu Messanum í Sjóminjasafninu. Dagskráin mun vekja athygli á fjölmörgum bæjarlistamönnum Akraness en einnig á matarmenningu bæjarfélagsins.
Frítt verður inná öll söfn miðborgarinnar og ýmsar sýningar og auk þess verður frítt í strætó.
Nánari upplýsingar er að finna á www.menningarnott.is
Hér að neðan má sjá brot af því helsta sem verður í boði á Menningarnótt:
Ýmsir íbúar Þingholtanna halda vöfflukaffi fyrir hátíðargesti að vana og heimilin sem bjóða til veislu í ár eru Óðinsgata 8b, Þingholtsstræti 27, Ingólfsstræti 19, Hellusund 3, Grettisgata, 26 og Mímisgata 2. Einn gestgjafanna er borgarstjóri Dagur B. Eggertsson. „Við erum byrjuð að leggja drög heima,“ segir Dagur. „Það verða allir velkomnir á Óðinsgötuna á meðan húsum leyfir!“ bætir hann við.
Boðið verður uppá salsakennslu og salsadans á Lækjartorgi og gönguferðir um Reykjavíkurhöfn. Boðið verður uppá íkonasýning í rússnesku Réttrúnaðarkirkjunni. Í Hörpu verður meðal annars hægt að njóta Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Súkkulaðikökuóperu, Blúshátíðar í Reykjavík og sönghópsins Spectrum. Þá verður nóg um tónlistaratriði á svæðinu.
Í Tjarnarbíói verður sýningin Koddahjal þar sem gestum er boðið að koma sér vel fyrir í rúmum frá Rauða krossinum og hlusta á frásagnir af reynslu flóttafólks og hælisleitenda. Hitt húsið verður með fjölbreytta dagskrá með tónleikum og gjörningum. Í Iðnó verður meðal annars svokallað heimspekikaffihús og síðar ætla níu bílskúrhljómsveitir að troða upp. Hip hop hátíð Menningarnætur verður um kvöldið.
Íslensk erfðagreining býður uppá 100 ára afmælissýningu á verkum Kristjáns Davíðssonar þar sem hægt verður að sjá verk sem hafa aldrei verið sýnd áður á opinberum vettvangi. Á Þjóðminjasafninu verður afar fjölbreytt dagskrá frá morgni til kvölds þar sem hægt verður að fræðast um sýningarnar á safninu og taka þátt í alls kyns viðburðum. Þá verður Bylgjan með tónlistarveislu í Hljómskálagarðinum um kvöldið.
Fjölmargt verður boði í Þingholtunum fyrir utan vöfflukaffið. Flóamarkaður verður haldinn í JCI húsinu í Hellusundi og ótal tónleikar verða haldnir í Hannesarholti. Listamaðurinn Snorri Ásmundsson mun einnig opna sýningu sína þar. Einnig verður pop up-markaður í Listasafni Íslands.
Haldinn verður ratleikur fyrir börn og fullorðna í Gallerý Fold og þar ætlar listakonurnar Katrín Matthíasdóttir, Þórunn Bára Björnsdóttir, Abba og Soffía Sæmundsdóttir að vinna að verkum sínum og spjalla við gesti.
Karnivali verður slegið upp á horni Klappastígs og Hverfisgötu þar sem hægt verður að skemmta sér við tónlist fjölmargra skemmtikrafta. Í Safnahúsinu verður meðal annars leiklestur sem nefnist Spegill samfélagsins 1770 þar sem hægt verður að skyggnast inní líf landans fyrir tæpum tveimur öldum. Í Þjóðleikhúsinu verður fimm klukkutíma spunamaraþon frá Improv Íslands.
Á Kjarvalsstöðum og í Hafnarhúsinu verða ýmsar sýningar. Til að mynda verður hægt að taka þátt í gerð langrar landslagsmyndar á Kjarvalsstöðum og taka þátt í ratleik um útilistaverkin við húsið. Gjörningur Ragnars Kjartanssonar Kona í e-moll verður fluttur á sýningu hans í Hafnarhúsinu.
Útitónleikarnir Tónaflóð Rásar 2 verða að vana á Arnarhóli með yfirskriftinni Eitthvað fyrir alla. Þau sem fram koma eru Reykjavíkurdætur, Friðrik Dór, Svala Björgvins og Síðan skein sól. Tónleikarnir hefjast klukkan átta og standa til klukkan ellefu, fram að flugeldasýningu Menningarnætur.
Menningarnótt lýkur með flugeldasýningu klukkan ellefu að loknu Tónaflóði Rásar 2 á Arnarhóli. Hjálparsveit skáta í Reykjavík sér um skipulag og framkvæmd hennar að þessu sinni ásamt Höfuðborgarstofu. „Þetta verður sjónarspil,“ segir Áshildur Bragadóttir, forstöðukona Höfuðborgarstofu.