Jordi Pujolà starfaði árum saman sem fasteignasali í heimaborg sinni Barcelona þegar hann fann hjá sér þörf fyrir að breyta til og helga sig ritstörfum. Frá því hann fluttist til Íslands fyrir fjórum árum ásamt fjölskyldu sinni hefur hann skrifað tvær skáldsögur á spænsku þar sem Ísland er í brennidepli og notar hvert tækifæri til að kynna landið fyrir löndum sínum, m.a. heldur hann úti bloggi til gagns og gamans fyrir spænskumælandi túrista á Íslandi.
Þannig var líf Katalónans Jordis Pujolà, hagfræðings, fasteignasala og fjárfestis í Barcelona, þar sem hann er fæddur og uppalinn og bjó með eiginkonu sinni, Guðnýju Hilmarsdóttur ljósmyndara, og tveimur ungum börnum árið 2012. Það var þá sem hann ákvað að láta drauminn rætast, leysa rithöfundinn í sér úr læðingi, breyta til og lifa annars konar og einfaldara lífi. Á öðrum stað. Ári síðar fluttist fjölskyldan búferlum til Íslands. Jordi byrjaði að skrifa.
„Fyrsta skáldsaga mín, Necesitamos un Cambio – El sueño de Islandia, kom út árið 2015. Á íslensku þýðir titillinn Við þurfum breytingu – Íslenski draumurinn,“ segir Jordi brosandi og lýsir söguþræðinum stuttlega: „Tónlistarmaðurinn Martin berst gegn spillingu á Spáni, sem að hans mati er þjóðfélag misskiptingar. Hins vegar finnst honum flest til fyrirmyndar á Íslandi, til dæmis hvernig Íslendingar nýta jarðvarma til upphitunar húsa, og stofnar stjórnmálaflokki á Spáni sem hann nefnir Við viljum breytingar.“
Ísland er innblástur sögunnar og Jordi getur ekki neitað að hann og söguhetjan eigi ýmislegt sameiginlegt; báðir hrifust af Íslandi og breyttu lífi sínu, hvor með sínum hætti. „Þegar ég byrjaði að stunda jóga og hugleiðslu fyrir um fimmtán árum varð smám saman hugarfarsbreyting hjá mér. Árið 2012 var ég að verða fertugur, hafði alltaf búið í Barcelona, verið umkringdur sama fólkinu og lífið var orðið svolítið eins og rútína. Ég gerði mér æ betur grein fyrir að það sem mig raunverulega langaði til var að fást við ritstörf, verða rithöfundur og skrifa skáldsögur. Maður lifir aðeins einu sinni og fær ekki annað tækifæri. Þótt við Guðný hefðum ráðgert að búa áfram í Barcelona tók hún hugmyndinni um að flytja til Íslands fagnandi – eins og fjölskylda hennar þegar hún fékk tíðindin. Öðru máli gegndi auðvitað um mína fjölskyldu, ákvörðunin kom henni algjörlega í opna skjöldu,“ segir Jordi.
Faðir hans reyndi að vonum að telja honum hughvarf, enda missti hann ekki aðeins son sinn úr landi heldur um leið meðeiganda og samstarfsmann til fjölda ára. „Hann spurði hvort ég gæti ekki alveg eins skrifað í Barcelona úr því ég hafði fengið þá flugu í höfuðið að verða rithöfundur. En ég vissi að þar gæti ég aldrei slitið mig alveg frá vinnunni og viðskiptavinunum. Ég þyrfti að gera róttækar breytingar í nýju umhverfi. Auk þess var áhættan ekki svo mikil því við gætum alltaf flust aftur til Barcelona ef því væri að skipta.“
En fjölskyldan er alsæl á Íslandi. Jordi á varla orð yfir fegurð landsins og stórbrotna náttúru. Hann lætur kuldann og veðrið ekki á sig fá, nýtur þess raunar hversu hér er umhleypingasamt, og gengur bæði á fjöll og hjólar allra sinna ferða hvernig sem viðrar. Honum finnst mikilvægt að stunda útivist og heilbrigða lífshætti. Að vísu saknar hann fjölskyldu sinnar í Barcelona, en hvorki sólarinnar og góða verðursins né BMW-sins, nema síður væri. Enda finnst honum óþarfi fyrir meðalmann eins og hann að eiga glæsibifreið þegar það eina sem maður þurfi sé öruggur bíll til að komast á leiðarenda. Hvað þá tvö heimili þegar bara sé hægt að búa á einu.
„Fyrstu tvö árin lærði ég íslensku í Háskóla Íslands, en hætti vegna þess að ég hafði svo mikið að gera. Ég vildi ljúka við skáldsöguna og jafnframt eiga tíma með fjölskyldunni. Auk þess var ég í hlutastarfi sem þjónn og vann í birgðadeildinni hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum. Ég er að eðlisfari mjög skipulagður og vildi einfaldlega geta sinnt þessu öllu almennilega. Íslenskunámið bíður betri tíma.“
Jordi skilur íslensku býsna vel og gerir sér far um að tala málið, en bregður enskunni fyrir sig þegar samræður fara á „flóknara plan“ eins og hann segir. Eins og flestir Barcelonabúar er hann jafnvígur á katalónsku og spænsku. Skáldsagan er á spænsku og einnig sú næsta, El barman de Reykjavik, eða Barþjónn Reykjavíkur, sem hann hefur verið með í smíðum undanfarin tvö ár. „Bókin kemur út 21. september og þá ætlar spænski útgefandinn minn að halda útgáfuteiti í einni af bókaverslunum FNAC í Barcelona. Á sama tíma er La Merce-menningar- og tónlistarhátíðin haldin í borginni og er Reykjavík heiðursgestur í ár. Ég er í viðræðum við spænsku ræðismannsskrifstofuna um samvinnu á kynningarbás Íslendinga á hátíðinni svo hugsanlega stend ég þar vaktina einhvern daginn.“
Skáldsögur Jordis hverfast ekki aðeins að stórum hluta um Ísland heldur hefur hann verið ötull að kynna landið fyrir Spánverjum á öðrum vettvangi. Í fyrra setti hann í loftið bloggsíðu á spænsku þar sem Ísland er í brennidepli sem og ýmsir siðir sem kunna að koma þeim spánskt fyrir sjónir. Eins og honum sjálfum. Til að byrja með að minnsta kosti.
„Auk þess sem ég vinn vaktavinnu á Avis-bílaleigu ver ég miklum tíma í bloggið, sem er styrkt af Íslenskum fjallaleiðsögumönnum. Þeir eru með mikið af efni um Ísland á ensku á netinu, en vantaði upplýsingar á spænsku, enda Spánverjar almennt ekki mjög sleipir í enskunni. Heimsóknum á síðuna fjölgar jafnt og þétt, bara í júlí voru þær tólf þúsund og ég fæ æ fleiri fyrirspurnir og komment. Ég skrifa um allt milli himins og jarðar, gagnlegar upplýsingar um land og þjóð, mat og matarsiði, veitingastaði og veðrið, mína persónulegu reynslu og upplifun og ekki síst ýmsa undarlega siði og það sem útlendingum kann að finnast skrýtið í fari Íslendinga.“
Ári eftir að Jordi og fjölskylda fluttust til Íslands skrifaði hann grein í Stúdentablaðið með fyrirsögninni 20 skrýtnir hlutir við Ísland, sem vakti mikla athygli. Það sem honum þótti t.d. skrýtið var að Íslendingar opna gluggann þegar kyndingin inni er orðin of mikil, að verslun sé lokuð „vegna veðurblíðu“, að geta borgað einn sleikjó með kreditkorti og að fylgjast með Íslendingum tala á „innsoginu“ í símann. „Fyrst hélt ég að einhver ósköp hefðu komið fyrir,“ skrifaði hann.
Í bókinni Barmaður Reykjavíkur kemur Jordi líka inn á alls konar séríslenska siði. Hákarl er táknrænn í sögunni, en sjálfum finnst honum stórfurðulegt hvernig Íslendingar verka skepnuna áður en þeir leggja sér hana til munns. „Söguhetjan er lögfræðingur frá Barcelona sem kemur til Íslands til að hefja nýtt líf eftir að hafa lent í vondum málum og meðal annars átt í útistöðum við spænsku mafíuna. Hann fær vinnu við að blanda kokteila í ólöglegu spilavíti í Reykjavík þar sem eigandinn er með hákarl í glerbúri. Smám saman verður staðurinn rómaður fyrir einstaklega góða kokteila og spilavítið breytist í kokteilstað fyrir ríka og fræga fólkið. Hákarlinn í glerbúrinu og spilaborðið eru þó áfram höfð til minningar. Af barþjóninum er það að segja að hann kemst að raun um að fortíðin eltir mann alltaf uppi,“ segir Jordi. Honum finnst ástæðulaust að rekja söguþráðinn nánar, en upplýsir að ýmislegt megi lesa milli línanna og sögunni sé ætlað að kveikja hjá lesendum löngun til að sækja Ísland heim. „Ég bý til mjög góða kokteila,“ svarar hann svo kankvís þegar hann er spurður hvort hann eigi eitthvað sammerkt með söguhetjunni.
Öfugt við lögfræðinginn frá Barcelona, sem gerðist barþjónn í Reykjavík, er Jordi sáttur við fortíðina. Hann er nokkuð viss um að draumur hans rætist um að geta lifað af ritstörfum og bókaskrifum í framtíðinni. Á Íslandi. Enda bjó hann vel í haginn fyrir framtíðina í fortíðinni. „Ef maður einsetur sér eitthvað og vinnur að því af heilum hug vegnar manni vel. Ég væri ennþá í Barcelona ef ég sæktist eftir ríkidæmi og rútínu,“ segir hann.