Dæmdar fyrir að geta ekki gefið brjóst

Mæðurnar sögðu að vegna pressu um brjóstagjöf hafi þær falið …
Mæðurnar sögðu að vegna pressu um brjóstagjöf hafi þær falið pelagjöfina. AFP

Dæmi eru um að íslenskar konur feli sig inni á salernum til að gefa pela af ótta við að vera dæmdar eða niðurlægðar fyrir að geta ekki gefið brjóst. Þetta er meðal þess sem kemur fram í doktorsritgerð Sunnu Kristínar Símonardóttur við félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands, sem hún mun verja á morgun.

Í ritgerðinni skoðar Sunna mótun hinnar „góðu“ íslensku móður í gegnum ráðandi orðræður um tengslamyndun, brjóstagjöf og fæðingu.

Ekki ákvörðun að gefa brjóst á Íslandi

Meðal þess sem skoðað er í ritgerðinni eru frásagnir kvenna sem hafa átt í erfiðleikum með brjóstagjöf. Segir Sunna sögurnar hafa staðfest grun sinn um hina gríðarlegu pressu sem sett er á mæður um að gefa brjóst. „Á Íslandi er það ekki ákvörðun að gefa brjóst heldur er bara gengið út frá því. Erlendis eru konur spurðar hvort þær vilji hafa barn á brjósti en hér á landi er spurt hversu lengi þær vilja hafa börn á brjósti,“ segir Sunna.

Sunna Símonardóttir.
Sunna Símonardóttir.

Segir hún konur sem eiga í erfiðleikum með brjóstagjöf eða geta ekki haft börn sín á brjósti upplifa mikla skömm. „Þeim finnst þær hafa brugðist barninu, þær séu annars flokks mæður og halda jafnvel að börnin þeirra verði annars flokks því þau fengu ekki brjóstamjólk,“ segir Sunna og bendir á að mæður mæti ákveðinni orðræðu innan heilbrigðiskerfisins sem geti haft alvarlegar afleiðingar.

Stoppaðar og yfirheyrðar af ókunnugu fólki

Að sögn Sunnu upplifðu konurnar sem sögðu henni frá sinni reynslu þrýsting um að gefa brjóst frá heilbrigðisstarfsfólki, fjölskyldumeðlimum og vinum. „Þær lentu jafnvel í því að ókunnugt fólk stoppaði þær úti á götu til að yfirheyra þær um hvers vegna þær væru ekki með barnið sitt á brjósti,“ segir Sunna og bætir við að vegna þessarar miklu pressu hafi margar kvennanna falið pelagjöfina.

Spurð um það hvort þessi reynsla geti valdið alvarlegum afleiðingum hjá konum sem eiga í erfiðleikum með að gefa brjóst svarar Sunna játandi. „Þetta getur haft mjög slæmar afleiðingar fyrir sjálfsmyndina. Þær töluðu um kvíða, þunglyndi og áfallastreituröskun sem fylgifisk þessarar reynslu,“ segir Sunna. Þá segir hún margar kvennanna hafa upplifað þöggun, og haldið að þær væru þær einu sem höfðu gengið í gegnum þessa reynslu. „Ég fann mjög sterkt fyrir því hvað þær voru glaðar að einhver skyldi hafa áhuga á þeirra reynslu eftir að þær höfðu upplifað þessa þöggun.“

Mæður sem áttu í erfiðleikum með að gefa brjóst eða …
Mæður sem áttu í erfiðleikum með að gefa brjóst eða gátu það ekki upplifðu skömm. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Móðirin aðalumönnunaraðili en faðirinn ósýnilegur

Auk frásagna kvennanna sem áttu í erfiðleikum með brjóstagjöf vann Sunna með viðtöl við ljósmæður, óléttar konur og nýbakaðar mæður. Þá greindi hún texta sem notaðir eru í fræðsluefni um meðgöngu og umönnun.

Sunna segir niðurstöður greiningarinnar á textunum hafa verið afgerandi. „Móðirin er þar skilgreind sem aðalumönnunaraðili barnsins á meðan faðirinn er einhvern veginn ósýnilegur eða í hlutverki aðstoðarmanns,“ segir hún. „Móðirin á að beina allri sinni orku og öllum sínum líkama að barninu; það á að fá næringu, umhyggju, umönnun og hlýju frá móðurinni og ef hún uppfyllir það ekki er hætt á að hún sé skilgreind sem eitthvað annað en góð móðir.“

Á ekki vel saman við samfélagsleg gildi Íslendinga

Þá segir hún uppeldisaðferðir út frá kenningum um tengslamyndun að mörgu leyti vera kvenfjandsamlegar. „Í kenningum eins og um svokallað tengslauppeldi er öll ábyrgðin sett á herðar móðurinnar og pabbinn er algjör aukastærð,“ segir hún og bendir á að það eigi ekki sérstaklega vel saman við samfélagsleg gildi sem Íslendingar kveðjist standa fyrir. „Við búum auðvitað á Íslandi þar sem orðræðan er á þann veg að við séum jafnréttisparadís og viljum að feður taki jafnan þátt, og tölum um fæðingarorlof fyrir feður en þetta á ekki sérstaklega vel saman við það.“

Hún segir því mikilvægt að átta sig á því að hugmyndafræði sem þessi sé ekki heilagur sannleikur, heldur aðeins hugmyndir og orðræða sem hver og einn getur tekið sjálfstæða afstöðu til.

Sunna segir að í kenningum eins og um svokallað tengslauppeldi …
Sunna segir að í kenningum eins og um svokallað tengslauppeldi sé öll ábyrgðin sett á herðar móðurinnar og faðirinn sé algjör aukastærð. Mynd/Monkey Business

Móðurhlutverkið lengi verið henni hugleikið

Sunna segir ástæður þess að hún ákvað að skrifa um þetta efni; móðurhlutverkið og ýmislegt því tengdu, hafi verið þær að efnið sé henni hugleikið, auk þess sem aldrei hafi verið gerð rannsókn af þessu tagi hér á landi.

Sunna lauk námi í bókmennta- og kynjafræði frá Háskóla Íslands árið 2005 og meistaraprófi í kynjafræði frá University of Leeds árið 2008. Þá er hún sjálf móðir og hefur fylgst með móðurhlutverkinu frá ýmsum sjónarhornum. „Þetta hefur lengi verið mér hugleikið og ég hef mikinn áhuga á því hvernig hugmyndir um móðurhlutverkið þróast,“ segir hún.

AFP

Ritgerðin er greinasafn þar sem fjórar vísindagreinar liggja til grundvallar. Rannsóknin skoðar með hvaða hætti vísindaleg orðræða skilgreinir og skapar hina ,,góðu“ móður og hvernig ráðandi orðræður hafa áhrif á sjálfsskilning íslenskra mæðra. Með rannsókninni skoðar Sunna ríkjandi orðræður um móðurhlutverkið á Íslandi og setur í samhengi við fræðilega umfjöllun um foreldramenningu, mæðrun og feðrun og femínískar og póst-strúktúralískar kenningar um ögun og samspil valds og þekkingar.

Sunna mun verja ritgerðina í hátíðarsal Háskóla Íslands kl. 14:00 og er öllum opin. Andmælendur eru dr. Charlotte Faircloth, dósent í Félagsvísindum við University of Roehampton og dr. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Leiðbeinandi Sunnu er dr. Ingólfur V. Gíslason dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka