Stjórn Neytendasamtakanna hefur boðað til félagsfundar klukkan 17 í dag, fimmtudaginn 17. ágúst. Þar verður farið yfir stöðu mála og leitað eftir aðstoð og tillögum frá félagsmönnum að því er fram kemur í frétt á vef samtakanna.
Eins og fjallað hefur verið um hafa harðar deilur verið uppi innan samtakanna síðustu mánuði, en stjórn samtakanna lýsti yfir vantrausti á þáverandi formann, Ólaf Arnarson, í maí síðastliðnum. Sagði stjórnin Ólaf hafa komið félaginu í erfiða fjárhagsstöðu vegna útgjalda sem hann hafi stofnað til án aðkomu stjórnarinnar.
Í kjölfarið var öllu starfsfólki samtakanna sagt upp í júní til að bregðast við hinnar bágu fjárhagsstöðu. Loks sagði Ólafur af sér í júlí, en hann hafði gegnt starfinu frá því í október á síðasta ári.
Í yfirlýsingu frá Ólafi í kjölfar uppsagnarinnar sagði hann taprekstur samtakanna mega skýra af miklum tekjusamdrætti en ekki auknum útgjöldum samtakanna. Sagði hann þjónustusamninga við ríkið brot af því sem var áður fyrr og félagsmönnum hafi fækkað mikið.
Ólafur var gagnrýndur fyrir að hafa hækkað laun sín sem framkvæmdastjóri og fyrir að hafa greitt sér laun fyrir fram. Þá gagnrýndi minnihluti stjórnar Ólaf fyrir að hafa haft bílaleigubíl til umráða sem samtökin borguðu fyrir og eins fyrir að hafa skuldbundið félagið fjárhagslega vegna smáforrits sem samtökin létu gera.
Á dagskrá fundarins í dag er starf stjórnar frá síðasta þingi, staða fjármála samtakanna, umræður og siða- og starfsreglur. Fundurinn fer fram á Hotel Reykjavik Centrum að Aðalstræti og er fundarstjóri Gunnar Alexander Ólafsson. Einungis skuldlausir félagsmenn geta setið fundinn að því er fram kemur á Facebook-viðburði.