„Við vorum í raun og veru að tala við félagsmenn, án þess að gera það í gegnum fjölmiðla sem var því miður svolítið einkenni hjá okkur síðustu mánuði,“ segir Stefán Hrafn Jónsson, varaformaður Neytendasamtakanna. Samtökin funduðu í gær með félagsmönnum þar sem farið var yfir stöðu mála.
Eins og fjallað hefur verið um hafa harðar deilur verið uppi innan samtakanna síðustu mánuði, en stjórn samtakanna lýsti yfir vantrausti á þáverandi formann, Ólaf Arnarson, í maí síðastliðnum. Sagði stjórnin Ólaf hafa komið félaginu í erfiða fjárhagsstöðu vegna útgjalda sem hann hafi stofnað til án aðkomu stjórnarinnar.
Í kjölfarið var öllu starfsfólki samtakanna sagt upp í júní til að bregðast við hinni bágu fjárhagsstöðu. Loks sagði Ólafur af sér í júlí, en hann hafði gegnt starfinu frá því í október á síðasta ári.
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvenær nýr formaður verður kosinn en lög samtakanna segja til um að formaður sé kosinn á reglulegu þingi. „Næsta þing er haustið 2018. Það fer töluverð orka núna í að vinna í fjármálunum þannig að ég sé ekki að við kjósum í haust. Ég held að það sé hvorki tími né peningar til þess,“ segir Stefán.
Hann segir að fjármálastaða samtakanna hafi verið ansi dökk á vormánuðum. „Við höfum unnið að því að rétta okkur af og erum bjartsýn á að ná að klára árið með eiginfjárstöðu í núlli, sem er betra en að vera í mínus þó það hefði verið æskilegra að hafa varasjóð áfram,“ segir Stefán. Hann bætir við að á tímabili hafi stefnt í að samtökin yrðu 15 milljónum undir núlli í eiginfjárstöðu.