Piltur náði að bíta tvo lögreglumenn, m.a. í fingur, í miðbæ Reykjavíkur í nótt. Við leit á honum fannst hnífur sem hald var lagt á. Á meðan á þessu stóð gerði hópur ungmenna aðsúg að lögreglumönnum á vettvangi en slíkt er því miður ekki einsdæmi.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirliti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um verkefni sem hún sinnti vegna Menningarnætur í Reykjavík.
Að venju var töluvert annríki hjá lögreglu á Menningarnótt enda lögðu tugþúsundir gesta leið sína í miðborgina. Hátíðin gekk að flestu leyti vel að mati lögreglunnar, en einhverjir fóru þó yfir strikið í gleðinni og eyddu því nóttinni í fangageymslu. Raunar voru fangaklefar á lögreglustöðinni við Hverfisgötu fullnýttir og svo fór að vista þurfti líka fólk í miður góðu ástandi í fangaklefum á lögreglustöðinni í Hafnarfirði. Margir voru í ansi slæmu ásigkomulagi og voru enn að sofa úr sér vímuna þegar komið var vel fram yfir miðjan daginn í dag.
„Verkefni á Menningarnótt voru annars hefðbundin, en lögreglan sinnti útköllum vegna líkamsárása, heimilisofbeldis, fíkniefnamála og innbrota svo eitthvað sé nefnt,“ segir í yfirliti lögreglunnar. Þá voru nokkrir teknir fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur. Eitthvað var sömuleiðis um meiðsl á fólki en svo virðist sem hinir sömu hefðu flestir misst fótanna vegna drykkju og voru nokkrir fluttir á slysadeild þar sem gert var að sárum þeirra.
Lögreglan hafði enn fremur afskipti af unglingum víðs vegar á miðborgarsvæðinu og lagði hald á áfengi sem var í fórum þeirra og hafði því næst samband við foreldra og forráðamenn viðkomandi.
Ekki voru allir samstarfsfúsir sem urðu á vegi lögreglu á Menningarnótt en piltur sem hafði „óhreint mjöl í pokahorninu“, eins og það er orðað í yfirliti lögreglunnar, reyndi að komast undan lögreglumönnum þegar þeir þurftu að ræða við hann. Pilturinn náði að bíta tvo lögreglumenn, m.a. í fingur, en við leit á honum fannst hnífur, sem var haldlagður. Á meðan á þessu stóð gerði hópur ungmenna aðsúg að lögreglumönnum á vettvangi, „en slíkt er því miður ekki einsdæmi,“ segir í yfirliti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.