„Lögreglan var vond við mig“

Framburður Thomasar Möller Olsen, sem ákærður er fyrir að hafa banað Birnu Brjánsdóttur í janúar síðastliðnum, er mjög breyttur frá því í skýrslutökum hjá lögreglu fyrr á þessu ári. Hann gefur nú skýrslu fyrir dómi, en aðalmeðferð fer fram í málinu í dag í Héraðsdómi Reykjaness. Hann segist ekki hafa munað það við skýrslutökur hjá lögreglu, hvað hafi gerst. Hann hafi verið undir miklu álagi og einangrunin hafi verið honum erfið. Þá hafi lögreglan verið vond við hann. Grænlenskur túlkur túlkar fyrir Thomas.

Hér er hægt að fylgjast með beinni textalýsingu úr dómsal

Thomas lýsti atburðarásinni í nokkuð ítarlegu máli frá því hann og félagi hans af togaranum Polar Nanoq leigðu bíl síðdegis á föstudag og þar til hann og Nikolaj Wilhelm Herluf Olsen, sem einnig var handtekinn vegna málsins, tóku stúlku upp í bílinn aðfaranótt laugardagsins 14. janúar. Sú stúlka var Birna Brjánsdóttir. Thomas lýsir atburðarásinni í kjölfarið með þessum hætti:

„Við hægðum á okkur því það var bíll fyrir framan okkur. Svo kom allt í einu stelpa inn í bílinn og talaði íslensku. Ég held hún hafi haldið að þetta væri leigubíll en við sögðum henni að þetta væri ekki leigubíll. Við töluðum við hana á ensku. Við keyrðum áfram og ég hugsaði með mér að ég gæti alveg hjálpað henni heim. Við keyrðum í áttina til Hafnarfjarðar og Nikolaj og stelpan töluðu saman. Stelpan sofnaði í aftursæti bílsins. Svo beygðum við hjá Smáralind því Nikolaj sagðist vita um stað sem var strippklúbbur. Nikolaj fór út úr bílnum og var inni í tvær mínútur. Við vorum pínu villtir.

Segir Nikolaj hafa ekið á brott með Birnu

Við keyrðum yfir brúna og ég þurfti að pissa og Nikolaj vildi prívat tíma með konunni. Ég fór út að pissa og fór í smá göngutúr á meðan Nikolaj spjallaði við hana. Ég sé að hann keyrir framhjá en ég veit ekki hve lengi hann var í burtu. Ég hef sennilega misst símann minn því ég gat ekki haft samband við hann. Ég veit ekki hve langur tími leið en þegar Nikolaj kom aftur var hann einn. Ég spurði hvar konan væri og hann sagði mér að húsið hennar hefði verið rétt hjá og hún hefði ákveðið að labba heim. Svo fór ég aftur í ökumannssætið og keyrði. Nikolaj nuddaði hendurnar, hann var mjög æstur og horfði á mig, hann var mjög stressaður. Hann var með galopin augun.

Ég spáði ekki meira í hana en við fórum svo niður í skipið. Svo stoppuðum við til að drepa á bílnum og Nikolaj vildi fá jakkann sinn. Ég man svo eftir að hafa leitað að símanum mínum sem ég hélt að hefði dottið. Ég vildi fara inn því ég var með pakka sem ég þurfti að skila. Ég fór því aftast í höfnina.

Ég lagði bílnum rétt við skipið og fékk skilaboð frá þeim sem ég ætlaði að afhenda pakkann, en fannst óþægilegt að geta ekki lagt mig en held að ég hafi sofnað aðeins.

Á meðan ég beið þarna fékk ég skilaboð um hvort ég gæti hitt þann sem ég ætlaði að gefa pakkann, sem var frá Danmörku. Hann bað mig að hitta sig á þessum stað rétt fyrir klukkan sjö og bað mig að slökkva á símanum. Ég get ekki sagt nafnið hans. Ég get ekki sagt mikið meira.“

Kolbrún Benediktsdóttir, sækjandi málsins, virtist hissa á nýjum framburði. „Af hverju sagðirðu ekki frá þessu? Þetta er töluvert breyttur framburður en kom fram í þeim átta eða níu skýrslum sem voru teknar.“

Thomas sagðist ekki hafa munað þetta á þeim tíma. Hann ítrekaði að hann hefði ekki munað neitt, þegar Kolbrún Benediktsdóttir, sækjandi málsins, gekk á hann.

„Ég var svo drukkinn þá og því erfitt fyrir mig að muna þetta. Þessi eingangrun hjálpaði ekki, hún var erfið," sagði hann. Kolbrún benti hins vegar á að hann hefði ekki verið búinn að vera í einagrun við fyrstu yfirheyrslu.

Thomas sagðist lítið hafa sofið og að lögreglan hefði alltaf verið að koma inn og spyrja hvar Birna væri. „Lögreglan kom mjög illa fram við mig og ég var mjög stressaður.“

Hann sagði lögregluna hafa verið með leiðindi, hann hefði langað að hjálpa en stress hefði gert honum erfitt fyrir.

Kolbrún ítrekaði að hann hefði engu að síður sagt sögu sem hann hefði haldið sig við í gegnum allar skýrslutökurnar. „Ef þú mundir ekki eftir þessu af hverju sagðirðu það ekki?“ spurði hún.

Var undir mikilli pressu og sagði óvart ósatt

„Eftir að ég losnaði úr eingangrun og fór að hitta sálfræðing róaðist ég. Eftir að lögreglan hætti að koma til mín. Lögreglan var vond við mig. Hún sýndi mér myndir af því sem ég hafði ekki gert og kallaði mig öllum illum nöfnum. Þeir reyndu að nota kærustuna mína. Þeir sögðu við mig að þeir ætluðu að sýna henni myndirnar til að sýna henni hvernig skrímsli ég væri. Ég var undir mikilli pressu og langaði að hjálpa, en sagði óvart ósatt.“

Kolbrún benti á að hann hafði sagt aðra sögu að eigin frumkvæði við handtökuna. Að þeir hefðu tekið tvær konur upp í bílinn þegar þeir voru á rúntinum á föstudagskvöld. Þær hefðu verið í bílnum þegar þeir komu aftur að skipinu. „Þetta er þín frjálsa frásögn af því sem gerðist um nóttina,“ sagði Kolbrún. „Ég bið þig bara að koma með almennilega skýringu á því.“

Dómari spurði hvort ákærði geti skýrt þetta mál eitthvað frekar. Thomas svaraði: „Líkaminn róaðist eftir einangrunina og þá fór margt að skýrast.“ Hann sagðist ekki hafa séð Nikolaj á laugardag og sunnudag. Þegar þeir hittust aftur á mánudeginum sagði hann Nikolaj hafa spurt: „Þær eru ekki svo ungar, þessar stelpur?“ Þá sagðist Thomas hafa farið að hugsa að það hefðu verið tvær konur í bílnum. „Þegar lögreglan fór svo að spyrja mig mundi ég hvað Nikolaj hafði sagt og sagði að það hefðu verið tvær konur. Ég var undir mikilli pressu og lögreglan sýndi mér í myndavélum hvar ég hafði verið.“

Hér er hægt að fylgjast með beinni textalýsingu úr dómsal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert