Farþegar Primera Air sem lentu í eins og hálfs sólarhrings seinkun á flugi frá Tenerife á Kanaríeyjum um helgina hyggjast sækja bætur vegna seinkunarinnar. Lentu margir farþeganna í fjárhagslegu tjóni vegna vinnutaps í dag, en vélin, sem átti að lenda síðdegis á laugardag, lenti klukkan fjögur í morgun.
Hjónin Michael Clausen og Heiða Sigríður Davíðsdóttir voru á meðal farþega í vélinni, en þau segja upplýsingaskort frá flugfélaginu hafa verið það versta við töfina.
„Maður hefur fullan skilning á því að hlutir bili og gangi ekki eins og þeir eiga að gera, en það er þá lágmark að sýna fólki þá virðingu að reyna að skýra út og gefa upplýsingar um stöðuna,“ segir Michael í samtali við mbl.is. „Það vantaði algjörlega og við fréttum það til dæmis bara frá fólki frá Íslandi að vélin myndi líklega ekki fara á réttum tíma því það var búið að seinka fluginu frá Íslandi.“
mbl.is hefur ekki náð í forsvarsmenn Primera Air vegna málsins þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Forstjóri Primera Air, Hrafn Þorgeirsson, sagði í samtali við mbl.is í gærmorgun að ástæða seinkunarinnar væri vélarbilun. Sama og útilokað væri að fá leiguvélar til þess að hlaupa í skarðið um helgar í sumar og þá tæki tíma að fá varahluti og hvíla áhöfnina. Fleiri slík mál hafa komið upp um helgina.
Frétt mbl.is: „Þetta er bara óhappahelgi hjá okkur“
Hjónin, ásamt öðrum farþegum vélarinnar, biðu á flugvellinum á Tenerife alla aðfaranótt sunnudags og gátu því ekkert sofið. Upp úr hádegi á sunnudag var farþegum tilkynnt að ekki yrði flogið fyrr en klukkan 11 á sunnudagskvöld. Var farþegunum tjáð að þeim yrði útvegað hótel og þangað voru þeir keyrðir. „Flestir voru þá búnir að vaka á annan sólarhring því við vöknuðum snemma á laugardagsmorgni og þetta var á hádegi á sunnudegi,“ segir Michael.
Komið var á hótelið um klukkan tvö á sunnudag, en boðið var upp á mat klukkan fjögur. Michael segir marga hins vegar hafa sleppt matnum til að ná að leggja sig. Þegar farið var frá hótelinu í gærkvöldi fengu farþegar svo nestispakka með samlokum. „Við nýttum okkur það ekki heldur fórum og fengum okkur að borða, enda var maður ekki spenntur fyrir brauði eftir að vera búinn að vera hálfan sólarhring á flugstöðinni og borða ekkert annað þar.“
Þegar í flugstöðina var komið kom í ljós önnur korters-seinkun, sem Michael segir hafa valdið skjálfta hjá fólki. „Klukkan korter í ellefu var ekki að sjá að það ætti að fara að innrita um borð sem minnti á daginn áður,“ segir hann, en bætir við að sem betur fer hafi heimferðin gengið snurðulaust fyrir sig eftir að farið var að innrita korteri síðar.
Þegar í vélina var komið steig flugstjórinn út úr flugstjórnarklefanum til að útskýra fyrir farþegum ástæður seinkunarinnar. „Það var eiginlega það besta sem við fengum,“ segir Michael. „Hann stóð persónulega þarna sjálfur og skýrði út að það hefði orðið bilun í vélinni og síðan að það hafi orðið ljóst að flughöfnin þyrfti hvíld samkvæmt reglugerð og öryggisástæðum og því hefði ekki verið hægt að fara strax,“ segir hann.
Flugvélin lenti loks á Keflavíkurflugvelli klukkan fjögur í nótt og voru farþegar því flestir komnir heim til sín á milli hálfsex og sex í morgun. „Þá þurfti maður að hvíla sig að minnsta kosti til hádegis eftir þetta ferðalag og alla biðina,“ segir Michael.
Farþegar hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna vinnutaps í dag, auk annars konar tjóns eins og Michael bendir á: „Það var til dæmis búið að bjóða okkur í útskriftarveislu á laugardagskvöld og það var auðvitað mjög leiðinlegt að missa af því,“ segir hann.
Þá hafi verið mörg ung börn í farþegahópnum og erfitt hafi verið fyrir foreldrana að vera með börn sín í hálfan sólarhring á flugstöðinni á Tenerife.
„En óvissan og samskiptaleysið var stóra vandamálið,“ segir Michael. Spurður um það hvort afsökunarbeiðni hafi borist frá Primera Air svarar hann neitandi. „En Vita sendi póst í dag og baðst afsökunar á þessu og benti okkur á rétt okkar til að sækja bætur,“ segir Michael, en Vita er ferðaskrifstofan sem stóð fyrir ferðinni.
„Það er alveg ljóst að menn sækja þær bætur enda áttu langflest okkar að fara í vinnu í dag, og maður er ekkert að gera það þegar maður er ekki kominn heim fyrr en klukkan sex um morgun,“ segir hann.