Þarf samvinnu milli kerfa

Rætt var um nám á aðgreiningar á málþingi í dag.
Rætt var um nám á aðgreiningar á málþingi í dag. mbl.is/Valdís Þórðardóttir

Fyrst og fremst þarf að nást sameiginlegur skilningur á hugtakinu menntun án aðgreiningar bæði hjá kennurum og stjórnvöldum svo unnt sé að halda áfram að bæta stefnuna, menntun án aðgreiningar, á öllum stigum skólakerfisins á Íslandi. Þetta kom fram á málþinginu menntun fyrir alla á Íslandi, málþing um menntun án aðgreiningar og framkvæmd stefnunnar, sem mennta- og menningarmálaráðuneyti stóð fyrir í dag.

Tilefni málþingsins er viðamikil úttekt Evr­ópumiðstöðvar um mennt­un án aðgrein­ing­ar á leik-, grunn-, og fram­halds­skóla­stigi á Íslandi og var kynnt í byrjun mars fyrr á þessu ári. Í þeirri úttekt kom meðal annars fram að mennta­kerfið á Íslandi er vel fjár­magnað miðað við önn­ur lönd í Evr­ópu. Hins veg­ar þarf að end­ur­hugsa hvernig því er varið og láta það styðja bet­ur við stefnu um mennt­un án aðgrein­ing­ar. Hér á landi er hlutfall þeirra nemenda hærra sem eru með sérþarf­ir og grein­ing­ar eða um 16% þegar meðaltal í öðrum löndum Evrópu er um 4%. 

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra og Óttar Proppé heilbrigðisráðherra …
Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra og Óttar Proppé heilbrigðisráðherra lengst til hægri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, sagði mikilvægt að halda umræðunni um menntastefnuna skóla án aðgreiningar lifandi sérstaklega í ljósi þessarar úttektar en niðurstöður hennar fela í sér tækifæri til að gera mun betur. Hann benti einnig á að þessi menntastefna hefði verið við lýði undanfarið en hefði jafnframt verið talsvert gagnrýnd. 

Í úttektinni eru lagðar fram fjölmargar tillögur til úrbóta og ekki unnt að ýta þeim öllum úr vör öllum á sama tíma. Hins vegar eru fyrstu tillögurnar tímasettar til ársins 2019.

„Það er mikilvægt að málþingið skili gagnlegum efnivið,“ sagði Þórður Hjaltested, formaður Kennarasamband Íslands, og ítrekaði að sambandið mundi sjá til þess að afrakstur vinnu málþingsins myndi skila sér í enn betra starf innan skólans.  

Þórður var einn af þeim fulltrúum sem töluðu á málþinginu sem skrifuðu undir samstarfsyfirlýsingu um eftirfylgni úttektar Evrópumiðstöðvarinnar í mars síðastliðinn.  

Heilbrigðis- og menntakerfi dýrmætt 

„Heilbrigðis- og menntakerfi er eitt af því dýrmætasta sem við eigum,” sagði Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra og ítrekaði að menntun ætti að vera fyrir alla og flestir væru sammála um að menntun án aðgreiningar ætti að vera í forgrunni. „Við viljum tryggja lágmarksþjónustu við hæfi hvers og eins. Það á að vera sjálfsagt mál að hjálpa öllum börnum til þroska og menntunar,“ sagði Óttarr. Fljótlega bætti hann við að slagorðið: „Ekkert um okkur án okkar” hafi nýst honum vel og hann hefði það að leiðarljósi í sínu starfi. „Það er mikilvægt að þessi umræða verði í nánu samstarfi við þessa einstaklinga sem þurfa á þessari þjónustu að halda.“

Óttarr sagði jafnframt að verkefnin væru mörg sem þyrfti að bæta eins og t.d. að efla stuðning við börn með langvinna sjúkdóma eins og til dæmis gigt en slíkur stuðningur fælist ekki endilega í sérkennslu heldur væri hægt að styðja þau með öðrum hætti. Mikilvægt væri til dæmis að veita vel menntuðum kennurum aðstoð og stuðning. Til þess að svo megi verða verður allt kerfið að vinna saman.

„Við getum gert betur í að efla og bæta samstarfið milli kerfa. Við þurfum að samhæfa þjónustuna,“ sagði Óttarr.

Halldór Halldórsson, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, tók í sama streng og Óttarr og sagði mörg verkefni sem krefjast samstarfs milli ríkis og sveitarfélaga hafa fallið á grá svæði. Það hefði orðið á þeim rúmum tveimur áratugum sem liðnir væru frá því að sveitarfélögin tóku yfir rekstur skólanna.

Hann benti einnig á að fram að þessu hefðu kennarar sjálfir ekki mikið viljað ræða skóla án aðgreiningar. Hann spurði jafnframt hvort raunverulega væri þörf á öllum greiningunum sem íslensk skólabörn hafa og vísaði til þess að 16% nemenda væru með greiningar sem væri vel yfir meðaltali annarra landa innan Evrópu.  

„Framhaldsskólar þurfa meiri bjargir“

Olga Lísa Garðarsdóttir, formaður Skólameistarafélags Íslands, talaði um að í íslensku skólakerfi væri öll flóra nemenda og mikilvægt að mæta sérhverjum einstaklini á þeim stað sem hann er. Margir þeirra væru að fást við ólík og krefjandi verkefni í lífinu sjálfu sem hefði áhrif á andlega líðan. „Þörf fyrir sálfræðinga í framhaldsskólum hefur aukist. Framhaldsskólar þurfa meiri bjargir,“ sagði Olga Lísa.

Hún benti einnig á að mikil þörf væri á starfsþróun allra kennara á öllum skólastigum til að mæta þessum ólíku þörfum nemenda sem ýmist eru með annað móðurmál en íslensku, eiga við kynáttunarvanda eða glíma við andleg veikindi svo dæmi séu tekin.

Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra.
Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er fátt mikilvægara en hvernig við tryggjum fólki jöfn tækifæri. Þess vegna skiptir það miklu máli að við náum með sem bestum hætti að tryggja nám án aðgreiningar,“ sagði Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttisráðherra. Hann benti einnig á að kerfið sem þjónustar nemendur væri of seinlegt sérstaklega með tilliti til að greina og greiða úr hvaða þjónustu þeir þyrftu. Þetta þyrfti að bæta, að sögn Þorsteins. 

Nægt fjármagn en þarf að forgangsraða

„Það er mikilvægt að halda áfram með skólastarfið og þróa það,“ sagði doktor Am­anda Watkins, aðstoðarfram­kvæmda­stjóri Evr­ópumiðstöðvar um mennt­un án aðgrein­ing­ar í fyrirlestri sínum sem nefnist Gæðamenntun án aðgreiningar. Hún er ein af nokkrum sérfræðingum sem unnu að úttektinni. Hún lagði fyrst og fremst áherslu á þau tækifæri sem felast í úttektinni og Íslendingar geta nýtt sér til að gera skólakerfið enn betra. 

Hún sagði að í grunninn væri íslenskt menntakerfi mjög sterkt og stæði vörð um réttindi nemenda. Skólanámskráin byggist á sex grunnþáttum menntunar og miðaði ekki eingöngu að tiltekinni færni á ákveðnum sviðum. Sá sveigjanleiki sem er í íslensku skólakerfi er styrkleiki, að mati Watkins. 

Mennta­kerfið á Íslandi er vel fjár­magnað miðað við önn­ur lönd í Evr­ópu, sagði Watkins. „Hins veg­ar þarf að end­ur­hugsa hvernig því er varið og láta það styðja bet­ur við stefnu um mennt­un án aðgrein­ing­ar,“ segir Watkins. Þetta kom einnig fram í spjalli hennar við mbl.is í mars þegar niðurstöður úttektarinnar voru kynntar. 

Það sem greinir Ísland einnig frá öðrum löndum er hátt hlutfall nemenda sem eru með sérþarf­ir og grein­ing­ar eða 16%. Meirihluti þeirra er drengir. Hún segir þetta umhugsunarnefni sem við sem þjóð ættum að rýna í og velta fyrir okkur hvað veldur. 

Bekkurinn var þéttsetinn í salnum Skriðu í Stakkahlíð þar sem …
Bekkurinn var þéttsetinn í salnum Skriðu í Stakkahlíð þar sem málþingið fór fram. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert