„Þó að ég sé alinn upp í sveit fer fjarri því að ég skilji íslenskt landbúnaðarkerfi – eða sýni því skilning í núverandi mynd.“ Svo hefst pistill Hjálmars Gíslasonar, vörustjóra hjá Qlik og stofnanda Datamarket, sem hann birtir á Facebook-síðu sinni um helgina og vakið hefur mikla athygli.
Hjálmar viðrar þar hugmyndir sínar um sóknarfæri í markaðssetningu íslensks lambakjöts í kjölfar umræðunnar undanfarin misseri um þann vanda sem blasir við í sauðfjárrækt hér á landi.
„Rétt eins og Villi Naglbítur er ég nefnilega þeirrar skoðunar að „fátt sé betra en íslenska lambakjötið“. Ég hef stundum reynt að sannfæra mig um að þetta sé bara einhver rómantík í mér og vani við það sem ég er alinn upp við, en reynsla mín af lambakjöti annars staðar í heiminum, sem og viðbrögð útlendinga sem ég hef séð smakka hið íslenska eru á skjön við það,“ skrifar Hjálmar.
Hann er búsettur í Boston og kveðst hann vita til þess að þar bíði fólk með eftirvæntingu eftir að íslenska lambakjötið fáist í Whole Foods þar sem það er fáanlegt aðeins í nokkrar vikur í sláturtíðinni á haustin þar sem verslunin vill einungis selja það ferskt.
„Þetta er ekki þannig að það sé ekki eftirspurn eftir þessu, þetta selst alveg í Whole Foods þegar það kemur ferskt og fólk sem kynnist lambakjöti finnst það mjög gott,“ segir Hjálmar í samtali við mbl.is.
„Þá í rauninni fór ég að velta fyrir mér að erfiðleikarnir eru svolítið þeir að með svona litla framleiðslu annars vegar og hins vegar svona stóran markað þá er kannski erfitt að ætla sér að fara í einhverja breiða markaðsherferð og ætla að selja um öll Bandaríkin eða alls staðar í Evrópu eða eitthvað svoleiðis. Af hverju snúum við þessu ekki bara við og gerum þetta að parti af því að heimsækja Ísland? Þetta er dýr lúxusmatur sem allir sem koma til Íslands verða að smakka,“ útskýrir Hjálmar, sem kveðst þó ekki vera neinn sérfræðingur í markaðssetningu lambakjöts.
Aftur á móti sjái hann tækifæri felast í því að koma ferðamönnum sem sækja landið heim „á bragðið“ og þannig sé hægt að koma skilaboðunum víðar og jafnvel skapað frekari eftirspurn víða um heiminn.
„Ísland er náttúrulega með jákvæða ímynd heilt yfir en það er líka verið að búa til ákveðna ímynd,“ segir Hjálmar og vísar þar til að mynda í markaðssetningu íslenskrar náttúru í gegnum „Inspired by Iceland“.
„En þegar kemur að matnum þá byrjum við á því að tala um svið og kæstan hákarl, sem er fyndið og skemmtilegt af því að flestum finnst það bæði vont og ógeðslegt, en við erum ekki að tala um hvað við eigum í rauninni frábæran mat, ekki bara lambakjötið heldur líka frábæran fisk og annað sjávarmeti og svo framvegis,“ segir Hjálmar. Hann kveðst hafa tröllatrú á íslensku lambakjöti en pistil hans í heild sinni má sjá hér að neðan.