SS lækkar verð til bænda um 26%

Steinþór Skúlason er forstjóri SS. Hann segir að fækka þurfi …
Steinþór Skúlason er forstjóri SS. Hann segir að fækka þurfi fé um 20%. Eggert Jóhannesson

Sláturfélag Suðurlands greiðir um fjórðungi lægra dilkaverð til sauðfjárbænda núna, samanborið við árið í fyrra. Verðskrá fyrirtækisins var gefin út í dag og er að jafnaði 26% lægri en í fyrra. Kílóverð fyrir lömb í algengasta flokki R2, lækkar úr 649 krónum við upphaf sláturtíðar í fyrra, í 481 krónu nú.

Aðrir sláturleyfishafar hafa tilkynnt um allt að 35 prósent lækkun á afurðaverði til bænda, að óbreyttu.

Borga meira en aðrir

Steinþór Skúlason, forstjóri SS, leggur í samtali við mbl.is áherslu á að SS greiði 17-18 prósent hærra verð fyrir kjötið en aðrir sláturleyfishafar. „Við borguðum fimm til sjö prósent meira en aðrir í fyrra og staðan er sú núna að við erum að borga 14 prósent meira, samkvæmt verðskrá. Við erum auk þess að staðgreiða kjötið og álagsgreiðslur í september eru hærri hjá okkur en hinum. Munurinn er því 17-18 prósent.

Spurður hvort SS sé með þessu að sækjast eftir auknu fé til slátrunar segir hann að svo sé ekki. „Þetta er einfaldlega mat félagsins á því hversu langt við eigum að ganga við að lækka verð í einu skrefi.“

Tap á útflutningi

Hann segir, eins og landbúnaðarráðherra hefur raunar bent á, að fækka þurfi fé í landinu um 20% og segir að breyttar aðstæður til útflutnings ráði þar miklu um. Eftir hrun hafi kjöt sem flutt var út skilað hærra verði en innanlandsmarkaður. Styrking á gengi krónunnar og aðstæður á erlendum mörkuðum hafi snúið dæminu við.

Sláturleyfishafar glími við þá staðreynd í dag að verulegt tap sé á útflutningi á kjöti. Þá bendir hann á að verð á lambakjöti hafi staðið í stað á innanlandsmarkaði frá árinu 2010, þrátt fyrir að verðlag í landinu hafi hækkað og innlendur kostnaður hækkað mikið.

Segir neytendur hafa hagnast

Hann segir að tal um að aðgerðir í þágu sauðfjárbænda rýri kjör neytenda ekki ganga upp þegar horft sé til þeirrar staðreyndar að lambakjötið hefur lækkað í verslunum að raunvirði. „Neytendur hafa notið mikillar verðlækkunar á lambakjöti á undanförnum árum. Neytendur hafa hagnast mjög mikið. Við erum að selja lambakjöt á sömu krónutölu og árið 2010. Um hvaða aðra kjöttegund eða annan mat geturðu sagt það sama?“ Nú sé helst viðfangsefnið að verjast hruni í greininni.

Árshlutareikningur Sláturfélags Suðurlands var gefinn út í gær, þar sem farið var yfir afkomu á fyrri helmingi þessa árs. Hagnaður nam 129 milljónum króna samanborið við 305 milljónir króna í fyrra. Rekstrartekjur stóð í stað og voru 6,2 milljarðar króna. „Afkoma Sláturfélagsins versnaði milli ára en afurðahluti félagsins býr við afar erfið skilyrði.“ Fram kemur að fjárhagsstaða Sláturfélagsins sé traust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka