„Við erum núna að ræða við verktaka um mögulegar leiðir til að skera niður kostnað,“ segir Pétur Þór Jónasson, framkvæmdastjóri Eyþings, sambands sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum.
Erfiðlega hefur gengið að reka almenningssamgöngur á svæðinu og nú er komið að þolmörkum, að mati Péturs Þórs. Eyþing rekur tvær strætóleiðir innan landshlutans samkvæmt samningi við Vegagerðina og leiðirnar milli Akureyrar og Egilsstaða og Akureyrar og Reykjavíkur í samstarfi við aðra.
„Þessi akstur hefur engan veginn staðið undir sér og upphafleg áætlun hefur ekki gengið eftir að nokkru leyti. Vegagerðin greiðir framlag til okkar og síðan erum við með samning við verktaka um ákveðinn akstur. Sá samningur var gerður á grundvelli upphaflegra áætlana sem ekki standast,“ segir Pétur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.