Geislafræðingur stýrir verslun H&M

Lovísa Guðmundsdóttir, verslunarstjóri H&M í Smáralind.
Lovísa Guðmundsdóttir, verslunarstjóri H&M í Smáralind. mbl.is/Ófeigur

„Ég er rosalega spennt og ánægð. Frábært starfsfólk og það hefur gengið bara eins og í sögu,“ segir Lovísa Guðmundsdóttir, verslunarstjóri H&M í Smáralind sem opnaði í dag, í samtali við mbl.is. Lovísa er geislafræðingur að mennt en hefur um árabil starfað við verslun. Aðspurð kveðst hún afar spennt fyrir nýja hlutverkinu sem verslunarstjóri H&M.

Hún segir undirbúninginn í aðdraganda opnunarinnar hafa gengið afar vel og á hún ekki von á öðru en að allt gangi smurt og vel fyrir sig nú fyrsta daginn. Hún játar þó að það fylgi því ákveðið spennufall að loks sé komið að opnuninni. „Við erum vel undirbúin. Ég er búin að vinna að þessu síðan í mars þannig nú er stóra stundin loksins runnin upp,“ segir Lovísa.

Undirbúningurinn hefur bæði farið fram hér á landi auk þess sem Lovísa hefur verið stödd í Noregi og Póllandi til að kynnast fyrirkomulaginu betur og læra inn á kerfin og allt það sem er í verkahring verslunarstjóra.

Má máta sjö flíkur í einu

Aðspurð segist Lovísa ekki geta sagt nákvæmlega til um hversu margt starfsfólk mun starfa við verslunina. Þegar hafa 75 manns þó verið ráðnir til starfa hjá fyrirtækinu hér á landi sem starfa munu við verslanir H&M í Smáralind og í Kringlunni þar sem tískurisinn mun opna aðra verslun í haust.

Enn er talsverð röð fyrir utan verslunina á annarri hæð Smáralindar og er flæðið inn nokkuð gott enda verslunin stór. 20% afsláttur er af öllum vörum í dag í tilefni af opnuninni. Þar eru alls 21 mátunarklefi, níu í herradeild og tólf í dömudeild en heimilt er að taka sjö flíkur með inn í mátunarklefann í einu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert