„Ég mætti í gær klukkan tuttugu mínútur í tólf um morguninn,“ segir Freydís Björg Óttarsdóttir sem er búin að bíða lengst í röðinni eftir að komast inn í H&M. Aðspurð hvernig biðin hafi verið segir hún hana hafa verið alveg sæmilega.
„Í nótt þá svaf ég ekkert voða vel. Ég var með höfuðverk og svima en ég held að það sé bara út af vatnsskorti og það var ekki nógu gott loft,“ segir Freydís í samtali við mbl.is. Svefnleysið er þó ekki að sjá á Freydísi sem er eldhress og tilbúin til að vera fyrsti viðskiptavinur verslunarinnar.
„Ég var með teppi og kodda og helling af mat sem fólk var að gefa mér hérna í Smáralind, það var æðislegt,“ segir Freydís. Hún á von á að fá 25.000 króna gjafabréf í verslunina en aðspurð kveðst hún ekki vita nákvæmlega hvernig hún ætli að eyða því. „Það er fullt af fötum þarna sem ég er búin að sjá á myndum,“ segir hún.
„Það eru geðveikt margir sem eru að vinna í H&M búnir að hafa samband við mig og segjast hlakka til að hitta mig og sýna mér snyrtivörurnar og svoleiðis og sögðu „þú mátt koma í samstarf við H&M,“,“ segir Freydís glöð í bragði rétt áður en starfsfólk verslunarinnar steig trylltan dans fyrir utan búðina sem er í þann mund að opna.
Ansi margt er um manninn í Smáralindinni þar sem fólk bíður með eftirvæntingu í röðum beggja vegna rúllustigans á annarri hæð Smáralindar. Björgunarsveitarmenn og öryggisverðir eru á svæðinu til taks ef á þarf að halda.
Josephine nokkur var aftur á móti öftust í röðinni þegar mbl.is bar að garði. „Ég kom fyrir klukkutíma og ég er ekki búin að ákveða hvað ég ætla að kaupa. Alltaf þegar ég fer til útlanda verslum við í H&M,“ segir Josephine.
Vinkonurnar Alexandra og Rebekka, nemendur í Álfhólsskóla, voru nokkuð framarlega í röðinni og voru búnar að bíða þar í nokkra stund. Alexandra hafði séð nokkrar peysur í glugganum sem henni líst vel á en var þó ekki endanlega búin að ákveða hvað hún ætlar að versla. Aðspurðar hvort þær ætli að versla eitthvað sem þær vantar eða bara eitthvað sem þær langar í viðurkenna þær í kór að þær ætli að kaupa hvort tveggja.