Opnunar fyrstu verslunar sænska tískurisans H&M hér á landi hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu. Verslunin opnar í Smáralind klukkan tólf í dag en nú rétt fyrir klukkan tíu voru um tuttugu manns mættir í röðina.
Fyrstu þúsund viðskiptavinirnir fá gjafabréf í verslunina en andvirði þeirra er á bilinu 1.500 til 25.000 krónur. Sá sem fyrstur mætir fær 25 þúsund króna gjafabréf, sá næsti 20 þúsund króna gjafabréf og sá þriðji bréf að andvirði 14 þúsund krónur. Næstu þúsund gestirnir fá gjafabréf að andvirði 1.500 krónur. Þá verður veittur 20% afsláttur af öllum vörum fyrsta daginn.