Slökktu á ofninum eftir málmlekann

Enginn hlaut skaða við óhappið.
Enginn hlaut skaða við óhappið. mbl.is/Rax

„Það var enginn eldur, ekki einu sinni blossi. Það kom málmskot úr ofninum og fór á gólfið,“ segir Krist­leif­ur Andrés­son, upp­lýs­inga­full­trúi United Silicon. 

Greint var frá því heit­ur kís­il­málm­ur hefði lekið niður á gólf í kís­il­veri United Silcon þegar ker sem verið var að fylla á yf­ir­fyllt­ist.

„Það sem skiptir máli er að enginn hlaut skaða og starfsmenn brugðust hárrétt við. Nú er verið að bíða þangað til málmurinn kólnar og þá getum við skoðað framhaldið,“ segir Kristleifur, spurður um áhrif á starfsemi verksmiðjunnar.

Samkvæmt verkferlum var slökkt á ofninum, svæðið rýmt og kallað á slökkvilið þegar upp komst um lekann. Kristleifur segir að líklega sé tjónið minni háttar og aðallega á gólfinu. Ofninn verði aftur ræstur þegar búið er að fara yfir málið. 

Engin formleg ákvörðun tekin

Fyrr í vik­unni var greint frá því að Um­hverf­is­stofn­un hafi til­kynnt United Silcon að hún muni stöðva rekst­ur kís­il­verk­smiðjunn­ar, komi til þess að slökkt verði á ofni verk­smiðjunn­ar leng­ur en í klukku­stund eða ef afl hans fer und­ir tíu mega­vött.

Spurð hvaða afleiðingar atvikið í verksmiðjunni í dag gæti haft segir Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, að United Silicon hafi andmælafrest til miðvikudags og engin formleg ákvörðun hafi verið tekin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert