Björgólfur Guðmundsson, fyrrverandi aðaleigandi og stjórnarformaður í Landsbankanum, og Gunnar Thoroddssen, fyrrverandi yfirmaður Landsbankans í Lúxemborg, voru í dag sýknaðir fyrir dómi í París af ákæru um meintar blekkingar vegna veðlána sem bankinn veitti.
Rúv greinir frá niðurstöðunni, en fréttamaður frá Rúv er á staðnum.
Í málinu var tekist á um hvort Landsbankinn í Lúxemborg hafi blekkt viðskiptavini sína sem bankinn veitti eins konar lausafjárlán með veði í fasteignum. Var hugmyndin að viðskiptavinurinn fengi hluta af verðmæti veðsins útgreitt en bankinn fjárfesti fyrir afganginn af veðinu þannig að lánþeginn þyrfti í raun ekki að borga lánið sjálfur til baka.
Flestir sem lögðu verðmæti að veði fyrir lánunum voru ellilífeyrisþegar. Í frétt Rúv kemur fram lögfræðingar sem komu að málinu fyrir lántaka ætli að vinna að áfrýjun.
„Það stenst ekki að lántakendurnir hafi verið fórnarlömb svika þegar þeir veðsettu eignir sínar hjá Landsbankanum í Lúxemborg,“ segir í dómsuppkvaðningu Parísardómstólsins en greint er frá henni á lúxemborgíska fréttavefnum Le Quotidien.
Þar kemur fram að gjaldþrot Landsbankans í Lúxemborg hafi verið háð „óvissu í efnahagslífinu“. Lántakendurnir hafi verið meðvitaður um áhættuna með því að samþykkja lánin og fengu þannig fjármagn sem aðrir bankar höfðu neitað þeim um.