Kanna málnotkun fimm þúsund Íslendinga

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands.
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Ófeigur

Fimm þúsund Íslendingar hafa fengið eða munu á næstunni fá sent boð um að svara spurningalista sem er liður í umfangsmikilli málfræðirannsókn um stöðu íslenskunnar – og enskunnar  á Íslandi. Íslendingar frá þriggja ára aldri verða beðnir um að svara listanum.

Um er að ræða rannsókn sem fékk hæsta styrk sem veittur hefur verið til málfræðirannsókna á Íslandi, að sögn Eiríks Rögnvaldssonar, prófessors í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, en hann er annar af tveimur stjórnendum rannsóknarinnar. Hún ber nafnið: Könnun á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis og er ætlað að veita innsýn í stöðu íslenskunnar.

Rannsóknin hefur verið í undirbúningi frá því um mitt síðasta ár. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vinnur með þeim að verkefninu en þegar hafa um 3.500 manns, 13 ára og eldri, fengið sendan spurningalista. 1.500 börn á aldrinum 3-12 ára geta átt von á spurningalista á næstunni en þátttaka þeirra er vitanlega háð samþykki og aðstoð foreldra eða forráðamanna. Eiríkur segist mjög ánægður með hvað þátttakan í aldurshópnum 13-17 ára sé góð.

Vilja fá fram eðlilega málnotkun       

Hann segir að á meðal þess sem spurt sé um sé viðhorf til íslensku og ensku og notkun á þessum tungumálum. Jafnframt er spurt hversu mikið þátttakendur nota tiltekna miðla, svo sem net og sjónvarp. Þá verður einnig spurt um málfarsatriði.

Hann segir af og frá að um einhvers konar próf sé að ræða. „Við viljum að fólk dæmi um það hvað því finnst eðlilegt að segja, hvað sé í þeirra huga rétt og rangt, óháð því hvað fólk lærði í skóla. Við viljum fá fram eðlilega málnotkun en alls ekki það sem fólk telur sig hafa lært í skóla.“ Þá verður einnig kannaður orðaforði fólks í íslensku og ensku. Eiríkur vonast til að sem flestir í úrtakinu sjái sér fært að taka þátt en spurningalistinn er sendur með rafrænum hætti.

Í næsta hluta verkefnisins verða tekin viðtöl við suma þátttakendur. „Til stendur að taka viðtöl við fólk, allt að fjögurhundruð manns úr þessum hópi. Þegar niðurstöðurnar úr spurningalistunum verða komnar reynum við að finna og skoða þau atriði sem okkur finnst forvitnilegt að kanna nánar. Við veljum svo þetta smærra úrtak eftir því.“ Hann segir að um verði að ræða ítarleg viðtöl við fólk svo hægt verði að fá nákvæmari upplýsingar um málnotkun og viðhorf til tungumálanna.

Enginn veit með vissu

Eiríkur segir að ýmsum fullyrðingum sé haldið á lofti um áhrif snjalltækja á tungumálið og notkun á ensku því samhliða. „En það veit enginn neitt með vissu um þetta. Maður heyrir sögur um krakka sem leik sér saman og tala við það saman á ensku. En fyrir hverja tvo sem tala saman á ensku gætu verið 20 þúsund sem gera það ekki.“

Þó nokkur svör hafa þegar borist og Eiríkur segir að margt forvitnilegt hafi þegar komið í ljós, sem þó rími ágætlega við það sem hann hafði ímyndað sér áður. Hann vill þó ekkert segja til um niðurstöðurnar, enda eigi rannsakendur langt í landi. „Þetta eru mjög margar spurningar og flókin úrvinnsla.“

Eiríkur segir að eftirlitslaus aðgangur ungra barna að snjalltækjum, þar …
Eiríkur segir að eftirlitslaus aðgangur ungra barna að snjalltækjum, þar sem enska sé notuð, sé varasamur. AFP

Eftirlitslaus aðgangur varasamur

Eiríkur er ekki á því að snjalltækin séu endilega óvinur íslenskunnar. „Snjalltækin eru bara tæki sem hægt er að nota til góðs eða ills. Það er hins vegar óheppilegt ef börn, alveg niður í mjög ung börn, hafa alveg eftirlitslausan aðgang að snjalltækjum. Það skiptir miklu máli fyrir börn á máltökuskeiði að þau fái nægilega örvun á móðurmálinu. Ef þau eru allt of mikið í snjalltækjum á ensku, eins og til dæmis Youtube, þá læra þau mikið í ensku og það er í sjálfu sér ágætt. En hættan er að þau fái ekki nógu mikið áreiti á íslensku og byggi ekki upp nægilega sterkan grunn.“

Eiríkur tekur fram að þótt þau Sigríður Sigurjónsdóttir séu verkefnisstjórar komi margir aðrir að vinnslu rannsóknarinnar, bæði íslenskir og erlendir fræðimenn. Hann bindur vonir við að smátt og smátt verði hægt að kynna niðurstöðurnar, eftir því sem rannsókninni vindur fram, ýmist í fyrirlestrum eða á prenti. „En verkefninu lýkur formlega um mitt ár 2019. Eftir það verður þetta gert upp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka